19.08.1912
Efri deild: 28. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

24. mál, stofnun Landsbanka

Steingrímur Jónsson:

Jeg er samdóma háttv framsöguanni (B. Þ.) um það, að það eigi að fella fyrri lið þessa frumv. Ef það yrði samþykkt, að flytja útibúið væntanlega frá Seyðisfirði, þá væri það hið sama og samþykkja að það ætti að vera á Norðfirði, Eskifirði eða Fáskrúðsfirði, því þessir staðir eru nú stærstir verzlunarstaðir í Suður-Múlasýslu. En ástæðulaust væri nú, að bera fram þetta frumv., ef háttv. flutningsm. þess hefði ekki einhverja von um, að útibúið kæmist bráðlega á fót. En eins og nú hagar, er Seyðisfjörður stærstur kaupstaða þar eystra, og hefur mest viðskifti og auk þess miðstöð fyrir samgöngum á Austfjörðum, svo það er engin ástæða til þess, að samþykkja þessa breytingu nú.

Og jeg vil sjerstaklega mótmæla þessu frumv. fyrir hönd sýslu minnar, Þingeyjarsýslu, er hefur nokkur viðskifti við Seyðisfjörð.

Og ekki er það ástæða til að samþykkja þessa breytingu, að nú eru engin líkindi til þess, að bankinn geti sett útibúið á fót. Það gæti verið ástæða til að samþykkja þetta, ef ræzt hefði sú draumsjón margra Austfirðinga, að Fagradalsbrautin mundi gera Reyðarfjörð að aðalkaupstað Austfirðinga; en það eru engin líkindi til, að sú draumsjón rætist fyrst um sinn, þó það sje trú mín, að svo verði einhverntíma í framtíðinni, að aðalviðskiftin verði þar.

En jeg vil ganga lengra en háttv. frsm. (B. Þ.) gerði, jeg vil fella frumv. alt.

Jeg sje engin líkindi fyrir því, að Landsbankinn þurfi að setja á fót þessa afgreiðslustofu í Kaupmannahöfn, eða að hann hafi nokkurn hag af því, og skal leyfa mjer að benda á dæmi því til sönnunar, að jeg muni hjer fara með rjett mál. Frá því Íslandsbanki var stofnaður, hefur hann haft heimild til þess, að setja á fót útibú ytra. Þessa heimild sína hefur hann ekki notað, og mundi hann hafa gert það, ef hann hefði álitið sig þurfa þess, eða hafa nokkurn hagnað af því.

Og þeir háttv þm., er hafa mælt með þessum breytingum, hafa ekki sýnt fram á, hvaða hagnað Landsbankinn mundi hafa af þessu, en það tel jeg sjálfsagt þeir geri eða gerðu, ef unt væri.