22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Flutn.m. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Það sannast í þessu máli, að það er alt af ofboð fyrirhafnarlítið að vekja upp grýlur, og nógir sem til þess verða, að gera slíkt.

Hv. þm. Austur-Skaftfellinga (Þ. J.) sagði, að betra væri að styrkja innlenda menn eða félög til þess að keppa við Steinolíufélagið danska en að taka í lög einokun. Eg vildi mega spyrja hann, hvað hann héldi það myndi stoða fyrir innlenda menn eða félög að keppa við félög, sem hefðu hundruð þúsunda miljóna dollara höfuðstól? Til þess að stríða við slík einokunarfélög með von um nokkurn árangur er ekkert ráð til nema einokun. Allar eigur Íslands og allra Íslendinga hrykkju þar skamt, þær fylla þar ekki meira en krækiber í tunnu. Það er ekki til neins fyrir Íslendinga að fara að keppa við félag, sem hefir haft auðmagn til þess að ná undir sig mestöllum steinolíunámum og mestallri steinolíuverzlun í Ameriku. Standard Oil-hringnum hefir tekist að fá í sínar hendur 65% til 70% af steinolíuverzlun Bandaríkjanna. Auk þess sem félagið hefir náð þessu afarvaldi í Ameriku, hefir það líka mikla verzlun í Evrópu. Hér er annaðhvort að gera það sem dugar, eða liggja flatur undir einokun þessa erlenda stórgróðafélags.

Út af því sem sagt er um, að hin óákveðna lánsheimild beri vott um of mikið traust til stjórnarinnar, skal eg taka fram, að eg treysti því, að stjórnin taki ekki stærra lán en þörf er á. Fari hún bersýnilega út fyrir tilgang laganna, þá er þess að minnast, að vér höfum ströng ábyrgðarlög. Auðvitað getur stjórnin ráðið menn til þess að veita þessari steinolíuverzlun forstöðu. Það nær ekki nokkurri átt að það kosti 160.000 kr. að selja fyrir 450.000 kr. eins og hv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) hafði eftir milliþinganefndinni. Eg er viss um, að hér í Reykjavík má velja um góða menn fyrir svo sem 6.000 kr., til þess að hafa forstöðu þessarar verzlunar á hendi, svo að stjórnin þyrfti engan veg eða vanda að hafa af innkaupunum eða sölunni, nema hvað hún að sjálfsögðu ætti að hafa eftirlit með þessari landsverzlun.

Olíuna á að selja með því verði sem hún kostar hér á staðnum + flutningsgjaldi. Það er ákaflega einfalt mál. Það sem á olíuna legst er flutningskostnaður, geymslukostnaður, vextir af peningunum, sem fyrir hana eru greiddir, og sölukostnaður. Og það er gefið, hve mikið það er, svo að engin vandkvæði eru að ákveða í heildsölu útsöluverðið á steinolíunni. Það er engin ástæða til þess að taka heilan ársforða í einu. Nóg að taka að haustinu það sem duga muni yfir veturinn, og birgja sig svo aftur upp að vorinu til sumarsins. Eg skil sízt að verzlunarfróðum mönnum skuli detta slík fásinna í hug.

Þangað til stjórnin fer að nota heimildina, geta menn flutt inn, og allir hafa heimild til þess að selja það er þeir eiga. Ef steinolíusalar vilja demba alt of miklu inn í landið, áður en lögin ganga í gildi og selja hana við óhæfilega lágu verði, þá gerir það ekkert til, þeir gera ekki annað en auðga landsmenn jafnmikið og þeir skaða sjálfa sig á því.

En annars getur stjórnin notað heimildina svo fljótt, að ekki takist fyrir aðra að flytja óvenju-mikið af steinolíu inn í landið.

Skal eg svo ekki tala frekar um málið að sinni. En með þessu höfum vér flutningsmennirnir reynt að bæta úr vandræðunum, og verði frumv. felt, þá ber sá meiri hluti, er það gerir, ábyrgð á því, að ekkert er gert til þess að tryggja landsmönnum að geta fengið steinolíu með viðunanlegum kjörum.

Hæstv. ráðherra þótti menn ekki muna mikið um 5 kr. verðhækkun á fatinu. Fátæklingana, sem að eins nota hana til ljósa, munar um alt. En jafnvel efnaðri menn, sem hafa mótorbáta-úthald, munar um 5 kr. á fatinu. Einn einasta mótorbáta útgerðarmann getur munað þessi hækkun 1.500 kr. á ári. Mundi ekki hæstv. ráðherra muna það neinu, ef á hann væri lagður 1.500 kr. aukaskattur — ofan á það sem hann nú á að bera til allra stétta.

Hv. þm. Sfjk. (V. G.) hélt, að ef olía væri fáanlegri ódýrari í útlöndum, en hér, þá gæti hver sem vill pantað hana. Hann heldur það sé jafn-óbrotið, að panta 1 tn. af steinolíu, eins og einn og einn hring af gaddavír! En það er barnaleg hugmynd. Til þess að steinolíu-pöntun, t. d. frá New York e. Phildelphíu borgi sig, þarf að panta heilan skipsfarm í einu.