22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Valtýr Guðmundsson:

Eg er á því, enn sem fyr, að einokunarlög séu viðsjárverð í hverri mynd sem er, þótt eg játi reyndar, að ríkiseinokun sé dálítið skárri og miða eg það við reynslu liðinna alda, því að ætíð reyndist konungsverzlunin miklu betur en hitt, þegar einokunarleyfið var selt einstaklingum í hendur. En þó er nú aftur sá annmarki á ríkiseinokun, að reynsla þykir fyrir því, að á þann hátt fái menn lélegri vörur en ella. T. d. er orð á því, að franskt tóbak sé lélegt, en þar hefir ríkið einokun á því. Yfir höfuð er hætt við því að verðið verði hátt þegar þannig er til hagað, en vörurnar verri en þar, sem frjáls samkepni ræður. Það er líka eðlilegt, að þetta fyrirkomulag verði óhagstæðara, þar sem því verður að stjórna af embættismönnum, sem hafa sín föstu laun, hvort sem fyrirtækið gengur betur eða ver og hafa því ekki hina sömu hvöt til að leggja sig í framkróka eins og atvinnurekendur annars sem keppa hvor við annan. Kaupmaðurinn er neyddur til þess að vanda vörurnar og hafa verðið skaplegt sjálfssín vegna. Eigingirnin, sterkasta driffjöðrin í mannlífinu, rekur hann til þess, en þá driffjöður vantar þar sem einokun er og við engan er að keppa.

Eins er það, að ef eitthvað fer aflaga í verzlun, sem stjórnað er af ríkinu, þá er til einkis að kvarta um það; því að til hvers ætti að klaga nema stjórnarinnar, sem einmitt rekur sjálf. Það yrði þá svipað — þótt við reyndar höfum nú dómstóla hér — eins og nú á sér stað á Grænlandi, þar er ekki í annað hús að venda en til stjórnarinnar, sem sjálf rekur verzlunina og sjálf er dómarinn. Ef til vill mætti segja, að við gætum hengt ráðherrann, en það er hætt við að mundi sækja í sama horfið þótt annar tæki við.

Þá er enn að geta þess, að til þess að reka ríkisverzlun þarf afarmikið fé, eins og milliþinganefndin hefir þegar sýnt fram á. Það er satt, að líklega mætti hafa hag af slíkri verzlun, en nú er ekki þörf á að leggja út í hana þess vegna, þar sem búið er að búa svo vel í haginn hvað fjárhaginn snertir með öðrum ráðum. En hins vegar mundi þetta fyrirkomulag útheimta mikinn undirbúning, og þótt þetta frumv. yrði að lögum nú, þá er það alveg óþarft til þess að ráða fram úr augnabliks vandræðum, því að það mundi þurfa heilt ár áður en það kæmist í framkvæmd. Það verður að gá að því, að þegar stjórnin bannar öllum nema sjálfri sér að verzla með einhverja nauðsynjavöru, þá tekur hún um leið á sig skyldu til þess, að sjá mönnum alstaðar fyrir nægum birgðum af þeirri vöru, og það jafnvel á öllum árum, líka ísaárum, en til þess þarf heljar miklar birgðir.

Það sem hér stendur í brtill. á þskj. 382, að gefa Landsbankanum þessa heimild, er í rauninni ekki nema annað form á frumvarpinu, þar eð Landsbankinn er ríkisstofnun. En það er eitthvað skrítið, að banki skuli fara að fást við það, sem er svo fjarskylt öðrum störfum hans eins og þetta. Eg þekki að minsta kosti hvergi dæmi þess, að bankar verzli með annað en peninga, og eg held að það væri ekki heppilegt heldur. Það gæti veikt traust bankans, ef hann færi að braska með annað, og það gæti meira að segja orðið hættulegt fyrir hann, því að svo stór óhöpp gætu steðjað að þessari verzlun, að það setti bankann á höfuðið.

Þess vegna vil eg ekki fara þá leið, heldur reyna að finna einhver önnur ráð. Nú getur verið spurning um það, hvort nauðsynlegt sé eða tiltækilegt yfir höfuð að gera nokkuð; hvort þessi verðækkun, sem talað er um, er ekki almenn þannig að aðrir sæti sömu kjörum og vér. Eg er nú ekki alveg viss um að svo sé, að minsta kosti ekki að hækkunin sé eins gífurleg annarstaðar, enda eru flestir á því.

Einokunin sem óþolandi er, er landsmönnum sjálfum að kenna. Þeir geta ef þeir vilja skapað samkepni. Þeir þurfa ekki annað en að verða samtaka til þess, að hrista af sér einokunarfjötrana. Eg lít svo á, sem heppilegast sé að reyna að efla frjálsa samkeppni og vekja fólkið til meðvitundar um kosti hennar. Og eg hugsa að til þess að vekja meðvitund fólksins sé ekki óheppilegt að fara sömu leiðina, sem farin var með gaddavírslögunum hér á árunum. Sú leið reyndist vel þá og varð til þess að menn fengu gaddavír mun ódýrara en annars hefði orðið. Stjórnin gat fengið betri kaup á gaddavír en einstakir menn myndu hafa fengið og líkt hugsa eg mér að fara myndi að því er steinolíukaup snertir. Eg hugsa mér að sú aðferð yrði viðhöfð, að stjórnin leitaði sér upplýsinga í útlöndum um verð á steinolíu og auglýsti síðan hér heima að hún tæki að sér útvegun á steinolíu og með hvaða kjörum. En eg ætlast alls eigi til að stjórnin fari að panta steinolíu fyrir hvern einstakan mann, er þess óskar, heldur að eins fyrir bæjarstjórnir, sveitarstjórnir, kaupfélög og kaupmenn. Menn yrðu að slá sér saman í sveitinni eða bænum til að fá sveitar- eða bæjarstjórnina til þess að beita sér fyrir málið og olían yrði annaðhvort að vera borguð fyrir fram eða sett sú trygging fyrir borgun við afhendingu, er stjórnin tæki gilda. Með því að fara þessa leið er ýtt undir menn að stofna félög móti steinolíufélaginu. Og stjórnin leggur ekkert fé í hættu þar sem annað hvort á að borga olíuna fyrir fram eða setja tryggingu fyrir greiðslu andvirðisins við afhendingu. Það er jafnvel í meira lagi vafasamt, að landssjóður einu sinni í svip þyrfti að leggja nokkurn eyri út. Eg geri miklu heldur ráð fyrir að stjórnin myndi fá 3 til 6 mánaða kredít, og að sá tími myndi nægja til þess að ná í peningana frá viðskiftamönnunum — þeim er ekki hefðu borgað fyrir fram — og senda þá til þess, er selt hefði olíuna.

En hugsanlegt er það þó, að stjórnin þyrfti á peningum að halda í þessu skyni og fyrir því hefi eg lagt til, að hún mætti til þess verja 500.000 kr. og til þess að tryggja það, að málið ekki strandaði á því, þótt peningarnir væru ekki til í landssjóðnum, fer eg fram á að stjórninni sé veitt heimild til þess að taka lán í þessu skyni.

Eins og eg hefi áður sagt, geri eg ekki ráð fyrir að til þess þurfi að koma. Menn munu ef til vill segja að afleiðingin af slíkum pöntunum muni verða engin önnur en sú, að D. D. P. A. setji niður verðið á olíunni svo ekki borgi sig að panta lengur og verði því þá hætt. En það er einmitt ekki nema gott, því að þá er tilganginum að útvega landsmönnum olíu með viðunanlegu verði náð, og stjórnin á ekkert á hættu, því að hún pantar aðeins þá olíu, sem borguð er fyrirfram eða sett fullnægjandi tryging fyrir borgun við afhendingu. Segjum svo að þessi verðlækkun standi aðeins stutta stund og þegar pantanirnar eru hættar hækki félagið aftur verðið á olíunni, þá byrjar bara stjórnin að nýju að panta olíu fyrir menn. Það er ofur einfalt mál, það er að segja ef menn vilja þá ekki leggja inn á aðrar brautir, brautir sem eg auðvitað aldrei vil fara inn á, en sem ekki væri óhugsandi að fólkið vildi fara inn á. Þess vegna eru „pantanir“ bezta ráðið í bráðina, ef það á annað borð er þörf á að grípa inn, og það er gerlegt fyrir stjórnina að framkvæma þetta, en alveg ógerlegt fyrir hana að koma frv. sem hér liggur fyrir í framkvæmd.

Háttv. 1. þm. G-K. (B. Kr.) og hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sögðu að sitthvað væri að panta gaddavír og steinolíu. Það er að vísu satt, en þar fyrir get eg ekki séð að nein sérstök vandkvæði geti orðið á að framkvæma þessar steinolíupantanir ef til kemur. Það er að segja, að útvega olíuna í útlöndum og flytja hana til Reykjavíkur. Þó sækja yrði olíuna alla leið til Ameríku, þá eru engin vandræði við að fá hana flutta hingað yfir Skotland.

Þar sem sagt hefir verið að illa hafi verið farið með gaddavírinn, hann hafi legið í reiðileysi niður í fjöru og eyðilagst og líkt myndi fara með steinolíuna, þá verð eg að segja, að láti menn hana fara forgörðum fyrir handvömm eina, þá er neyðin ekki mikil, og landssjóður getur aldrei beðið neitt fjártjón, þar sem borgunin á að fylgja pöntuninni eða fullnægjandi trygging. Hvað því við víkur að það, að borgun eigi að fylgja fyrirfram, muni leggja hömlur á pantanirnar, þá getur að vísu verið að svo verði að einhverju leyti, en sé það mönnum verulegt alvörumál að losa sig úr klóm þessa erlenda stórgróðafélags, þá finst mér að þeir geti vel lagt það á sig og hljóti að geta haft einhver ráð til að útvega sér peninga til þess að borga olíuna nokkrum mánuðum áður en þeir fá hana. Eg veit ekki hvort verðhækkunin á steinolíu er almenn, en sé hún það ekki, þá má gera tilraun til þess að panta ódýrari olíu, en þá, sem danska steinolíufélagið hefir á boðstólum, en þó verðhækkunin sé almenn og ekkert við henni hægt að gera, þá er þó engu spilt þótt stjórnin hafi þessa heimild. Þetta er þó alt af tilraun af þingins hálfu til þess að hjálpa. Annars þætti mér vænt um að heyra hvað hæstv. ráðherra (H. H.) telur ráðlegt að gera í þessu máli.