22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Jón Magnússon:

Eg var svo óheppinn að lenda í nefndinni í þessu máli. Nú þegar komið er fast að þinglokum er ekki hugsanlegt, að mál þetta geti orðið nægilega athugað. Hér er alt öðru máli að gegna, en kolaeinkasala til hagnaðar fyrir landssjóð. Með henni átti að auka tekjur hans. Hér er ætlast til að landssjóður taki á sig byrði. Frá því sjónarmiði er nauðsynlegt að athuga málið nákvæmlega. Það hlýtur að hafa verið í gamni, sem háttv. 1. þm. G. K. (B. Kr.) sagði að rökstudda dagskráin, sem samþykt var út af steinolíu einkasölufrv. stjórnarinnar hér í deildinni, hefði verið borin fram í því skyni að hjálpa í þessu máli. Það getur aldrei verið hjálp að því, í neinu máli, að vísa því frá. Dagskráin veitti stjórninni enga heimild til þess að verja einum eyri af landsfé til þess að bæta úr olíuvandræðunum

Þá var vísað til þess að bankarnir mundu rétta hjálparhönd í þessu máli, en það hvílir engin skylda á þeim í því efni, og ef þeir gera það verða þeir að gera það upp á sína eigin ábyrgð. Eg verð að segja það, að mér er ómögulegt að hugsa mér að svona mál geti orðið samþykt á einu augnabliki, og ef mönnum er alvara rneð að vilja að það fái framgang, þá verður að lengja þingið að mun. Eg játa það hreinskilnislega að eg hefi ekki getað áttað mig á hvort sú leið, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) vill fara í þessu máli, er fær eða heppileg. Til þess að geta áttað sig fullkomlega á málinu og tekið ákvörðun í því, þarf það miklu meiri rannsókn, íhugun og undirbúning, en hægt er að gera á 1—2 dögum. Það má kannske færa margt því til stuðings, svo sem að það losi kaupmenn úr viðjum o. fl., en samt get eg ekki talið það rétt að samþykkja það óathugað. Að fara líka leið og farin var, að því er gaddavírinn snerti, er eg mikið vondaufur um að komi að nokkru haldi í þessu máli. Eg get heldur ekki greitt br.till. háttv. þm. Sfjk. (V G.) atkvæði — læt þær hlutlausar.

Það er mér óskiljanlegt hvernig bankastjóra, eins og háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.), getur dottið í hug, að banki, sem er seðlabanki og geymir sparisjóðsfé, fari að gerast olíukaupmaður. Það getur verið að hann geti upplýst að einhver banki einhversstaðar í heiminum hafi einhvern tíma gert það. en aldrei hefi eg heyrt það. Slíkur kaupskapur er bankastarfsemi með öllu óskyldur. Eg skil ekki annað en þetta hafi verið spaug hjá hinum háttv. þm. til þess að láta svo sýnast sem hann benti á leið. Yfir höfuð get eg ekki, eins og eg hefi áður tekið fram, verið með framgangi þessa máls, nema þingtíminn verði lengdur.