23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Ráðherrann (H. H.):

Háttv. þm. sem síðast talaði, benti á, að þing yrði haldið á næsta sumri, og mætti þá framlengja heimildina. Stjórnin verður að miða við þau lög, sem gilda, og haga ráðstöfunum sínum eftir þeim. Henni mundi naumast þykja örugt að byrja mikilsvarðandi og áhættumiklar framkvæmdir eftir þessum lögum, fyr en löggjafarvald væri búið að bæta úr verstu göllunum. En ef hægt er að bíða til næsta þings með að gera þessi lög nokkurn veginn svo úr garði, að á þeim verði framkvæmdir bygðar, hvers vegna má þá ekki eins láta frumv. alt bíða þangað til á næsta þingi?

Hvað er unnið við það, að hafa þetta meistarastykki ónotað í stjórnartíðindunum?