25.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

42. mál, lán til að bæta landsskjálftaskemdir

Flutningsm. (Eggert Pálsson):

Eg geri ekki ráð fyrir að fara þurfi mörgum orðum um þessa þingsályktunartillögu. öllum er meira eða minna kunnugt um tjón það sem orsakaðist af jarðskjálftunum í vor í Rangárvallasýslu, bæði af blöðunum og sömuleiðis af skýrslu, sem legið hefir frammi á lestrarsalnum. Það má geta þess, að í skýrslunni sem fram er lögð hefir alls ekki verið gerð tilraun til þess, að meta tjónið til peningaverðs, og á hinn bóginn ekki tilgreindir neinir bæir nema þeir, þar sem tjónið var stórkostlegast. Vitanlegt að margir aðrir bæir skemdust meira eða minna, þótt ekki kæmi til mála að meta eða telja þær skemdir. Ef alt hefði verið metið, hefði tjónið reiknast miklu meira á svæði því sem jarðskjálftinn náði aðallega yfir heldur en 1896, því að það er samhljóða álit allra þar eystra, að þessi landsskjálftakippur hafi verið miklu lengri og snarpari en nokkur kippurinn í landsskjálftanum 1896. Að ekki skemdust eins mörg hús eða féllu eins margir bæir nú eins og þá átti sér stað, kemur af ýmsum samverkandi ástæðum. Þessi kippur var að eins einn í sinni röð, í stað þess að 1896 voru þeir 3 eða 4 er ráku hver annan. Ef svo hefði verið nú, hefðu margfalt fleiri bæir hrunið nú en þá. Þá er og annað byggingarlag nú en þá var, timburhús miklu fleiri, bæði íbúðarhús og hlöður. En aðalástæðan mun þó vera sú, að jarðskjálftakippurinn nú náði ekki yfir jafnstórt svæði eins og þá. Árið 1896 náði jarðskjálftinn bæði yfir Árnes- og Rangárvallasýslu, en í vor aðallega yfir efri hluta Rangárvallasýslu. En jafnframt því sem svæðið var takmarkaðra, sýnist kippurinn að hafa verið ennþá snarpari. Jörðin klofnaði á stóru svæði og alt yfirborð hennar gerbreyttist, eins og hv. samþingismaður minn getur sérstaklega borið vitni um eftir eigin sjón. Eins og skýrslan ber með sér hafa 137 bæir fallið og 470 hús skemst. Má sjá á því að jarðskjálftinn hefir verið mikill, einkum þegar tillit er tekið til þess, að ekkert er talið með nema það sem stórskemdist, og eins og eg gat um áðan er margt meira og minna skemt þar að auki.

Þegar svona var komið varð eitthvað til bragðs að taka. Leit út fyrir um tíma, að bændur margir hverjir mundu ganga frá jörðum sínum slippir og snauðir. Því að þótt fénaður væri til mundi hann ekki hafa hrokkið meira hjá allflestum, en fyrir skuldum. Það er því augsýnilegt þvílíkt voðatjón slíkt hefði verið, ekki að eins fyrir einstaklinginn heldur og fyrir sveitarfélögin.

Úrræðið sem sýslunefndinni sýndist helzt að gripa til, var að sækja um lán úr viðlagasjóði, og fékk sú málaleitun þá þegar beztu undirtektir hjá stjórninni. Var hugsunin sú, að sýslusjóður lánaði svo aftur út þetta fé hlutaðeigandi hreppsfélögum að réttri tiltölu við skemdirnar, en þau aftur einstaklingunum, sem mest höfðu tjónið beðið, og erfiðast áttu með að risa undir því gegn veði, ef svo sýndist, í hinum endurreistu húsum.

Það má að vísu segja, að fleiri vegir hafi verið til fyrir sýslunefndina en þessi eini. T. d. sá, að leita almennra samskota. En það var samhljóða álit hennar og eg held flestra þar eystra, að æskilegast væri að geta sneitt algerlega hjá þeim vegi. Bæði er það að mönnum þykir jafnan leitt að vera bónbjargarmenn, ef annars er kostur, og svo eru dæmi til að slíkum samskotum hefir ekki þótt sem sanngjarnlegast útbýtt.

Þetta varð því úrræðið, að reyna að fá lán úr viðlagasjóði, og þá auðvitað sem minst, sem hugsað var að hægt væri að komast af með, þar eð sýslufélagið vildi vitanlega ekki binda sjálfu sér þyngri bagga en á þyrfti að halda. Og upphæðin sem menn hugsuðu sér að mundi mega láta sér nægja, var 25 þús. kr. Jafnframt var það og haft fyrir augum, að hver einstakur maður, sem láns þessa yrði aðnjótandi, verði því eingöngu til efniskaupa, til þess að kaupa timbur, þakjárn og steinlím. Reynslan hefir kent oss Rangæingum það, að byggingarlagið, sem tíðkast hefir frá fornöld sem sé hús með háum veggjum bygðum úr grjóti eða torfi og grjóti og með grjóthellnaþaki, getur verið stórhættulegt, bæði fyrir menn og skepnur. En að hættan er aftur á móti miklu minni, ef þökin eru höfð létt og veggirnir lágir. Sérstaklega séu þeir steyptir, eins og sýndi sig nú við síðasta jarðskjálfta, að steypta veggi eða grunna sakaði ekki hót þótt aðrir veggir hryndu. Sömuleiðis hefir reynslan kent oss það, að ekki tjáir að taka slíkt lán, sem hér um ræðir, til langs tíma, jafn tíðir og jarðskjálftarnir gerast á þessu svæði. Það liðu ekki nema 16 ár seinast milli jarðskjálftanna og þar áður 18, svo að gera má þannig ráð fyrir, að eigi liði mörg ár þangað til að þeir komi enn að nýju. Tíminn sem lánið er tekið til, má því ekki vera lengri en svo, að nokkurnveginn vissa sé fyrir að lánið sé goldið áður en jarðskjálftar koma næst. En af hinum stutta afborgunarfresti leiðir það, að þá þarf lánið líka að vera vaxtalaust ef hlutaðeigendum á að vera nokkur hjálp í því. Væri það með vöxtum mundu vextirnir og hin árlega afborgun á 10 ára tímabili verða svo stór upphæð árlega, að lánþyggjendur mundu alls eigi fá undir henni risið. Og hjálpin þannig í raun og veru verða sama sem eða verri en engin.

Eg skal geta þess, að fráfarandi stjórn brást vel við þessari lánbeiðni sýslubúa og taldi sig fúsa til þess að lána féð, en taldi sig að eins bresta heimild til þess að semja um ákveðin lánsskilyrði. Þess vegna er nú þessi tillaga fram komin í báðum deildum þingsins, til þess að fá þessi skilyrði fastsett af þingsins hálfu. Sýslumaður Rangæinga bíður hér í Rvík eftir úrslitum þessa máls, svo að hann geti hafið peninga þessa og þeir geti orðið til þess að bæta úr bráðaþörf og borga skuldir þeirra, sem fyrir mestu tjóninu hafa orðið. Því í trausti þess að málið mundi fá góðan framgang bæði hjá þingi og stjórn, hafa margir þegar keypt talsvert að byggingarefni, sem þarf að fara að borga. Þess vegna þarf hér að hafa hraðan á, og eg vænti þess að Alþingi muni taka eins vel í þetta mál eins og landsstjórnin þegar hefir gert, svo að þessi till. verði samþ. fyrirstöðulaust í báðum deildum og að öllum sé það ljóst að hér er um mannúðarverk að ræða, sem sjálfsagt sé að ljá liðsinni sitt.