16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

85. mál, strandferðanefnd til að athuga strandferðirnar og Thore-samninginn

Framsögum. meiri hl. (Guðlaugur Guðmundsson):

Það er lítið sem eg þarf að svara af því sem hefir komið fram í ræðunum. Eg veit að háttv. þm. hafa gert sér málið svo ljóst að þeir geta fljótlega séð að hér er úr vöndu að ráða og horfir málið þannig við, að annaðhvort verði strandferðirnar að falla niður næsta ár, eða þá að þing og stjórn verði að sæta afarkostum. Það var rétt mælt, sem háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) sagði um hrópin um fjölgun við komustaða strandferðabátanna, þau heyrast viða að, en alt um það eru þessi hróp ekki þýðingarmikil og ekki má ætlast til að þessi hróp séu tekin alt of mikið til greina. Þau eru flest og mest að kenna þingmönnum sjálfum, þeir reynast ótrauðir að krefjast gufuskipaviðkomu, hver í sínu kjördæmi og einatt á fráleitustu stöðum, oft gera þeir þetta af einhverri mikilmensku til þess að geta sagt kjósendunum að þarna hafi þeir getað útvegað nýjan viðkomustað. Eg veit dæmi þess að á slíkum viðkomustöðum hefir ekki fengist nokkur afgreiðslumaður, þó að honum væri lofaðar allar tekjur af farmgjaldi er til féllu á staðnum. Get eg nefnt 6—7 dæmi þessu til sönnunar eftir upplýsingum sem hefi fengið hjá afgreiðslumanni bátanna á Akureyri. Þó að menn á slíkum stöðum æpi um að skipin komi við hjá sér 10—12 sinnum á ári, þá er alveg ástæðulaust að taka það nokkuð til greina, þeim þykir gaman að sjá gufuskipin bruna upp undir landssteinana og sport að heyra þau pípa, þó ekki væri annað. — Það er þingmönnum að kenna að strandferðir eru svo slæmar nú, að ekkert félag vill framar við þeim taka nema þá með afarkostum. Viðvíkjandi því sem hæstv. ráð herra (H. H.) sagði, þá mun nefndin taka það til íhugunar og býst eg við að að hún muni fallast á það. Br.till. á þgskj. 272 finst mér vera varhugaverð að setja Lübeck ferðirnar sem beint skilyrði, því að eftir bréfi sem lá fyrir nefndinni er beint farið fram á að félagið losni við samninginn um strandferðirnar alveg fororðslaust og án nokkurra skilyrða. Hamborgarferða-samningurinn er álitinn innlimaður í samninginn um strandferðir og hygg eg því ekki rétt að setja hér nein skilyrði. Aftur á móti mætti setja inn við 3. umr. það ákvæði, að stjórninni sé veitt heimild til að setja slík skilyrði, ef henni, eftir nánari umleitun, sýndist það fært eða heppilegt. Meiri hluti nefndarinnar, gerir því ráð fyrir að breyta orðalaginu ofurlítið til 3. umr.

Fleiri tóku eigi til máls og var þá þessari fyrri umræðu lokið. Þingsköpin leyfðu eigi að láta frv. ganga til næstu umræðu án atkv.gr. Var þá leitað afbrygða frá þingsköpunum og leyfði hæstv. ráðherra (H. H.) það, og þingdeildin með 21 samhlj. atkv.

Samþ. málið til síðari umr. með 19 samhlj. atkv.