13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Kristján Jónsson:

Það eru að eins fáein orð sem eg vildi taka fram. Eg vil leggja áherslu á það að hér er ekki um neitt alment leyfi að ræða og enga undanþágu, heldur að eins skilning á lagagrein, og eg tel minn skilning á henni réttan. Það sem hér hefir verið gert, er að 17 tunnur af rauðvíni hafa verið fluttar úr einu skipi í annað skip hér á höfninni og verið geymdar þar þangað til þær voru afhentar réttum eiganda eftir þriggja vikna tíma. Svo var þetta vín flutt til útlanda aftur. Hér er því um fullkomið hliðstæði, „analogi“, við síðasta lið 5. gr. aðflutningsbannlaganna að ræða. Hún heimilar þennan skilning og þetta leyfi sem veitt var.

Það er áreiðanlegt að lögin banna ekki að flytja vín inn á landhelgissvæðið, heldur að eins að flytja það á land og selja landsmönnum. En hvorugt þetta var gert hér, því vínið fór til útlanda aftur Enda tel eg víst að við gætum ekki bannað að flytja áfengi inn á landhelgissvæðið; erlendar þjóðir mundu ekki láta sér það lynda.

Eg neita því líka að rétt hefði verið að heimta toll af þessu víni; það kæmi í bága við 30 ára gamla venju, því vínforði skipa hefir alt af verið tollfrjáls.

Mér virðist æði mikið gert úr þessu máli, að bera á mig að eg hafi brotið gildandi lög í þessu, og þætti því furðulegt ef þessi dagskrá, sem fram er komin, verður samþykt hér í deildinni. Það er nú langt síðan þetta gerðist, og engar dulur hafa verið dregnar á það; allir gátu fengið sjá skjölin þar að lútandi í stjórnarráðinu. Eg bauð háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) að láta hann sjá þau, einu sinni er við hittumst á götu í vor. Og þegar þessi úrskurður var kveðinn upp var það vissulega með fullri meðvitund um þá ábyrgð sem á mér hvíldi í því efni.