21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

82. mál, viðskiptaráðunauturinn

Kristján Jónsson:

Eg vona að það sé augljóst af því sem fram er komið í málinu, að pólitísk starfsemi hér á landi komi ekki í bága við skipunarbréf viðskiftaráðunautarins. Honum er með nefndu bréfi alls eigi bannað að gefa sig við pólitík hér á landi. Aðal afskifti hans af pólitík hefir komið fram á þann veg, að hann hefir verið alþm. og hefir þingmenska hans verið tvívegis samþykt af Alþingi, bæði 1909 og 1911. Það hefir verið aðal aðfinningin við stjórnina að hún ekki skuli hafa bannað honum pólitísk afskifti hér, en þegar þetta er ljóst, sem eg sagði áðan, þá held eg því fram í fullri alvöru, að stjórnin hafi ekki gert sig seka um neina eftirlitsbresti á viðskiftaráðunautnum, þótt hún eigi leitaðist við að banna honum pólitíska starfsemi hér innan lands. Hins vegar gat stjórnin ekki séð um að hann framkvæmdi þetta eða þetta, hún gat ekki séð um að hann kæmi vissum framkvæmdum í verk, hafði engin ráð til þess. Geta vil eg þó þess, að eg átti tal við viðskiftaráðunautinn í fyrra áður en eg sigldi og óskaði eg þá þess, að hann leitaðist fyrir um það hvort ekki mætti fá nýjan markað erlendis fyrir íslenzkan saltfisk, því að mér var kunnugt, að þá höfðu Norðmenn nýlega farið að hagnýta sér nýjan og ágætan markað fyrir þessa vörutegund í Suður-Ameríku, sem sé í Argentína; eg get þessa til þess að benda á að stjórnin hefir þó ekki látið viðskiftaráðunautinn alveg afskiftalausan.

Þá hefir það verið fundið að, að á skýrslur viðskiftaráðunautsins til stjórnarinnar, hafi vantað undirskrift og dagsetningu, eg skal raunar ekki fortaka að þetta hafi komið fyrir, en þá hefir þó æfinlega fylgt þeim bréf, sem hvorki hefir vantað dagsetningu né undirskrift.

Að ekki hafi verið hægt að hafa upp á viðskiftaráðunautnum erlendis, held eg að ekki geti verið rétt, því eg veit til þess að hann hefir auglýst það í blöðum, að minsta kosti í sínu eigin blaði, að menn gætu snúið sér til Stjórnarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn til vita um verustaði hans, hverjir þeir væru í hvert skifti; eg spurði skrifstofustjórann (Jón Krabbe) um þetta í vor, þegar eg var í Höfn, og skýrði hann mér frá, að viðskiftaráðunauturinn tilkynti þeim á skrifstofunni æfinlega frá því á hvaða stöðum hann væri og hvað lengi hann dveldi á hverjum stað.

Þá hefir verið minst á það atvik, að viðskiftaráðunauturinn kom heim í haust er leið og dvaldi hér þá lengi og hafi hann ekki haft leyfi til þessarar ferðar; það er rétt, að stjórnin hafði hvorugt gert, hvorki leyft honum að fara heim hingað, né heldur bannað honum það.

En þegar hann kom hingað heim, þá skýrði hann mér frá því, hvað hann væri að gera hingað, og sagði eg honum þá, að hann yrði að ábyrgjast fyrir Alþingi þennan erindarekstur sem annan. En eg tel að hann hafi þá átt lögmætt erindi hingað heim. Erindi hans var þá, að fá kaupmenn til að styðja að því að sænskar eimskipaferðir kæmust á milli Íslands og Danmerkur, auk þessa hafði hann á hendi annað erindi, er var það, að reyna að koma á „export“-félagi með kaupmönnum hér á landi, og veit eg til þess, að hann hefir átt tal um bæði þessi erindi sín við kaupmenn víðsvegar um land og hér í Reykjavík, og hefir hann gert mikið til að koma þessu í framkvæmd, þó að það hafi ekki tekist enn.

Mér hefir fundist rétt að geta þessa, sem eg hefi sagt, af því að eg held að viðskiftaráðunauturinn hafi, að þessu leyti, verið hafður fyrir rangri sök hér í dag.