16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

7. mál, yfirsetukvennalög

Framsögum. (Eggert Pálsson):

Út af því sem háttv. þm. Ak. (G. G.) sagði um greiðslu launanna, skal eg geta þess að nefndin áleit að um leið og það væri hentara fyrir reikningshaldara sýslusjóðanna eða sýslumennina, þá kæmi það líka yfirsetukonunum bezt að að þeim yrði borgað um það leyti, er þær helzt kynnu að skifta um bústaði, en það er á vorin í vinnuhjúaskildaga eða á fardögum. Annars skil eg ekki að vert sé að vera að gera þetta að kappsmáli, þó finst mér meira samræmi í því sem nefndin hér leggur til, en í því ákvæði frv. er þm. Ak. (G. G.) heldur með, að árslaunin miðist almanaksár. Að því er snertir háttv. þm. Dal. (B. J.), þá fer hann í 1. till. fram á að fæðingarstofnuninni í Kaupmannahöfn sé slept, og skilst mér að hér komi fram sú alkunna kredda hans, að hann vilji ekki láta það sjást í neinum lögum vorum, að við séum í sambandi við Dani eða höfum mök við þá. Þessi brt. hans finst mér því alveg þarflaus frá mínu sjónarmiði og hygg hana vera það frá sjónarmiði allra nema hans og hans kumpána.

Það gladdi mig aftur á móti að mér skildist að sami hv. þm. vildi sætta sig við breitingartill. nefndarinnar á launalágmarki yfirsetukvenna. Væru þessi laun hækkuð upp í 80 kr., eins og brt. hans gerir ráð fyrir, þá mundi það auka útgjöld sýslusjóða um meira en 2 þúsund kr., en það vildi nefndin ekki. Hún vildi ekki of þyngja þeim með svona ónauðsynlegri hækkun og demba henni þar að auki á, að óvörum, því þó að yfirsetukonur kynnu að verða fyrir þessa hækkun þakklátar, þá má þó ganga að því vísu, að ekki munu sýslu- og bæjasjóðir og gjaldendur til þeirra vera nefndinni neitt þakklátir fyrir hana.

6. brtill. sagði hv. þm. að væri að eins til skýringar, en nefndin áleit grein frumv. nægilega skýra, og sá því ekki ástæður til að taka brtill. til greina.

Hvað viðvíkur 7. breytingartillöguna, þá gerir hún með niðurlagi sínu svo stórfelda breytingu á því fyrirkomulagi sem nú er, að nefndin gat ekki gengið inn á það. Hún áleit rétt að láta telja þetta til fátækrastyrks, sem annað slíkt hjálparfé, sem mönnum, þegar þeir eru á annað borð ósjálfbjarga orðnir, er greitt úr hreppssjóðum.

Skal eg svo ekki orðlengja þetta en vona að háttv. deild samþykki frumv. með breytingum nefndarinnar.