08.08.1912
Efri deild: 19. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

36. mál, sala á eign Garðakirkju

Jens Pálsson:

Jeg vildi að eins segja örfá orð um mál þetta.

Jeg hygg, að það sje ekki ofmælt, að háttv. 3. kgk. þm. sje allra mann kunnugastur máli þessu, og þar sem hann hefur gefið hinni háttv. þingdeild svo ljósa og skýra lýsingu á landinu, hef jeg engu við það að bæta.

Það hefur verið um það talað, að mál þetta hafi ekki komið stjórnarráðsveginn hingað, og vildi jeg þar um gefa skýrslu sem annar aðili með tillögurjetti.

Jeg fór sjálfur til ráðherra og skýrði honum frá málinu og ljet jafnframt í ljós þá ósk mína, að ef stjórnarráðið áliti rjett og tiltækilegt að selja eignina, þá áliti jeg, að heppilegast væri, að stjórnarfrumvarp kæmi um það, en ráðherra leit svo á, að málið væri ekki þess eðlis. Jeg sneri mjer ekki um þetta til skrifstofustjóra eða landritara, heldur beina leið til ráðherra og að vísu munnlega.

Þótt kirkjujarðir að lögum heyri undir hreppstjóra, þá heyra prestssetrin undir biskup, og hjer ræðir um hluta af prestsetri; það sem því háttv. 4. kgk. talaði um lög um sölu kirkjujarða í þessu sambandi, þá á það ekki við þetta mál, einmitt af því, að hjer ræðir um hluta af prestssetri, er presturinn hefur allan afnotarjett af.

Hvað verðmæti landsins líður, þá er hægt að ganga úr skugga um það eftir leigusamningum af lóðum; en síðan jeg varð prestur í Görðum, hef jeg gert alla samninga í 3 eintökum, en eldri en um mína tíð eru víst að eins 2 samningar. Jeg hef altaf fylgt þessari reglu um 3 eintök og hefur leigutaki 1, presturinn í Görðum 1 og yfirstjórn kirkjunnar, — framan af stiftsyfirvöld og nú stjórnarráðið 1, og ætti því að vera hægt að sjá hjer hjá kirkjustjórninni, hversu miklu leigurnar nema, en það mun vera nálega 1700 kr., og ef það þætti máli skifta, mætti nálgast samningana heiman frá Görðum til að sjá það með vissu. En samkvæmt reynslu er ekki hægt að ná inn þessum 1.700 kr. með minni kostnaði en 100 kr.

Land það, sem ekki er bygt, liggur svo, að það er ekki tiltök að nota það nema með afarmiklum girðingarkostnaði.

Að þessu leyti álít jeg 52.000 kr. vera full hátt verð. Annars var talsvert tog milli mín og bæjarstjórnarinnar; hún vildi fá landið fyrir minna verð en þetta. En einhverja tillögu vildi jeg gera um málið. Jeg hafði í huga, hve mikil not gætu verið af landinu, og áleit þess langt að bíða, að land þetta gæti gefið af sjer það sem svarar rentum af 52.000 kr.

En það var eitt atriði, sem kom ekki skýrt fram í ræðu háttv. 3. kgk. — Fyrir sunnan þetta umrædda land er sjerstök jörð, Jófríðarstaðir. Land þeirra er mikið bygt nú. (Steingr. Jónsson: Er það prívat eign?), Já. Líklegt þykir mjer, að bærinn geti fengið kost á að ná í þá jörð í hálfa; að því gætu legið eðlileg drög, ef kappkostað væri. Þar fyrir sunnan er Hamarsland, þar eru 5 tún, sem nú gefa góðan arð. Það land liggur frá „Hamrinum“, sem tekur við sunnan við lóð J. P. Thorsteinsson & Co., og nær alt suður að Hvaleyrarlandi. Í þessu landi eru 2 býli, það er Flensborg og Óseyri, en þau eiga að eins tún sín, enga útjörð.

Hamar er jörð með talsverðu landi, er liggur að höfninni í Hafnarfirði. Þessa jörð á dánarbú Þorsteins kaupmanns Egilssonar, og vill selja, enda hefur boðið Hafnarfjarðarkaupstað kaup á því. Af Hvaleyrarlandi, sem er víðáttumikið, og liggur einnig að höfninni, á sama dánarbú helminginn, og er mjer kunnugt, að erfingjarnir muni vilja selja það, ef þeir fengju það viðunanlega borgað. Og Hafnarfjörður stæði bezt að vígi til að kaupa það og nota.

Þetta, sem jeg hjer hef sagt, styður það, sem 3. kgk. tók fram, að Hafnarfjörður gæti áreiðanlega fengið aðrar landsspildur keyptar. Og fari svo, að Hafnarfjörður eignist Hamars- Hvaleyrar- og Jófríðararstaðaland, þá vil jeg ekki eiga að verja suðurjaðarinn á Garðalandi. Jeg vildi að eins sýna fram á, að það er ekki út í bláinn, að hann benti á, að nóg land væri til, sem Hafnarfjörður gæti fengið keypt. Ennfremur vil jeg taka það fram, að Akurgerðislóðina gömlu átti fyr meir Garðakirkja. Var Akurgerði sölsað undan kirkjunni með málaferlunum alkunnu milli Garðaprests og Knutzons stórkaupmanns. Mál þeirra gengu til hæstarjettar, en kirkjan tapaði málinu. Síðan gáfu nýjar ástæður (skilríki) ástæðu til að fitja málið upp aftur. En þá rjeðu málspartar málaferlum þessum til lykta með sætt, og hlaut Knutzon allmikla skák af kauptúnslóðinni. Þessi skák eða blettur, svo nefnd Akurgerðislóð, er verulegur hluti kaupstaðarstæðisins. Út frá henni ganga bryggjur frá tveim stærstu verzlunarhúsunum í bænum og bæjarbryggjan, sem nú er verið að byggja, og upp frá bryggju þessari er nóg óbygð lóð fyr hús þau, er bærinn kann að vilja reisa í sambandi við bryggjuna.

Þessa Akurgerðislóð alla hefur bærinn fyrir 2 eða 3 árum keypt. — Hann er þess vegna, er á alt er litið, ekki í neinum vandræðum um landeign.

Þegar jeg legg það til, að þessi kaup verði gerð, þá lít jeg als ekki á hagsmuni Hafnarfjarðar, heldur miklu fremur á hagsmuni prestalaunasjóðsins; það er honum fyrir beztu, að landinu sje ekki haldið í svo háu verði, að það gangi ekki út. En hættulegt að láta kaupin bíða, þar sem nóg annað land er fyrir hendi. — Hef jeg nú skýrt frá afstöðu minni í þessu máli.