15.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

8. mál, bólusetningar

Framsögum. meiri hl. (Halldór Steinsson):

Frv. þetta er lagt fyrir þingið af stjórninni eftir tillögum landlæknis. Gjald fyrir bólusetningar er yfirleitt lágt hér á landi, en einkum þó í sveitum og minni kauptúnum, vegna þess, að þar er fyrirhöfn og kostnaður meiri en í stærri kauptúnum, þar sem allir eru bólusettir á einum stað. Í sveitum er bólusett á mörgum stöðum, og auk þess þarf læknir að fara aðrar ferðir á eftir til að skoða börnin, hvort bólan hafi komið út. Auk þess eru yfir- leitt færri börn til sveita og borgunin er því tiltölulega lægri. Eftir skýrslu landlæknis eru í minstu sveitum ekki bólusett nema 10—15 börn á ári. Komi bólan út á 10 börnum, þá fær bólusetjari samkvæmt núgildandi lögum 3 kr. borgun fyrir starf sem tekur í minsta lagi 2—3 daga, en oftast lengri tíma, því að erfitt er að fylgja því, sem lögin skipa fyrir, að safna börnunum á tvo staði í hverjum hrepp; venjulega er bólusett á fleiri stöðum, þótt það sé ekki lagaleg skylda bólusetjara. Það er því augljóst, að þetta er engin borgun. Betri er borgunin nú í kauptúnum, þó hún sé langt frá því að vera góð.

Það má gera ráð fyrir að í kauptúni með 5—6 hundruð íbúum séu bólusett á ári hverju 30 börn. Komi bólan út á 2/3%, fær bólusetjari 6 kr. borgun, en til starfsins fara minst 2 dagar, annar til bólusetningarinnar og hinn til skoðunar. Eg hygg því að þetta starf sé verst launað allra opinberra starfa á landinu.

Meiri hl. nefndarinnar felst því á að hækka kaup fyrir bólusetningar í sveitum og smærri kauptúnum, en ekki í stærri kauptúnum. En svo vill meiri hl. breyta frv. í þá átt, að koma meiri jöfnuði á borgunina. í lögunum frá 1901 er ákveðið að kaup bólusetjara skuli vera misjafnt, lægra ef bólan kemur ekki út. Eg skil ekki hvernig svo fráleitt ákvæði sem þetta gat komist inn í lögin 1901, og enn óskiljanlegra finst mér að því skuli vera haldið í þessu frv., sem á þó að bæta þau lög. Þetta ákvæði er svo fráleitt, að það fer í bága við öll gildandi lög um starfrækslu opinberra starfsmanna. Ef litið er til yfirsetukvennalaganna, þá sjá menn að yfirsetukonum er ætlað vist kaup, 3 kr. fyrir hverja yfirsetu, hvernig sem fæðingin tekst, hvort sem móðirin og barnið lifa eða deyja. Í taksta héraðslækna er hvergi tiltekið misjafnt kaup, eftir því hvernig verkið tekst, enda væri það óeðlilegt og tortryggni á samvizkusemi manna. Þegar starfsmaður er ráðinn, þá er að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að hann leysi starf sitt samvizkusamlega af hendi. Ef hann vanrækir það þá á ekki að refsa honum með því að klípa af kaupinu, heldur á hann að komast undir hegningarákvæði laganna.

Nefndin leggur því til, að kaup bólusetjara sé 20 au. í kaupstöðum og stærri kauptúnum, en 35 aurar í sveitum og smærri kauptúnum. Eftir „statistik“ í útlöndum kemur bóla út á 96% af frumbólusettum, en á 67% af endurbólusettum, sé bóluefnið nýtt og gott. En það má ekki gera ráð fyrir jafngóðum árangri hér á landi, því að efnið er aldrei eins gott hér vegna þess, að þegar það er hingað komið, er það misjafnlega gamalt. Ef bólan kemur út á 2/3% af þeim sem bólusettir eru í fyrsta sinn, og á 2/5%—1/4% af þeim, sem bólusettir eru í annað sinn, þá verður kaupið eftir till. meiri hl. nefndarinnar sama sem ætlast er til í frumv. stjórnarinnar. Munurinn verður að eins sá, að till. meiri hl. n. ganga út á það að koma meiri jöfnuði á borgunina; það er sjálfsagt að borgunin sé jöfn í öllum tilfellum fyrir þetta starf eins og önnur opinber störf. Sérstaklega þar sem því er svo varið, að það er að jafnaði ekki á valdi bólusetjara, hvort bólan kemur út eða ekki.