20.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

6. mál, stofnun yfirsetukvennaskóla í Reykjavík

Jón Magnússon:

Eg er á sama máli og háttv. framsögum. (Jóh. Jóh.), að það er varasamt að breyta frumv., því afleiðingin gæti orðið sú, að engin kensla yrði í ljósmóðurfræði. Það var sagt að laun landlæknis væru svo há, að ekki væri rétt að bæta við þau, þó honum væri gert að skyldu að halda þessari kenslu. Eg veit ekki hvort ástæða er til að láta sér vaxa í augum laun hans. Þau eru vitanlega dágóð, en hann hefir líka lagt mikið í skrifstofukostnað, hefir t. d. orðið að halda skrifara í mörg ár. Auk þess hefir heilbrigðislöggjöfin aukist mjög mikið síðustu árin, og hafa embættisstörf landslæknis aukist svo mjög við það, að hann hefir ekki getað gengt læknistörfum jafnt og áður. En aðal atriðið er það, að við eigum á hættu að engin kensla verði í ljósmóður fræði ef br.till. verða samþyktar, því eg efast um að nokkur dugandi læknir fáist til að taka kensluna að sér fyrir þá borgun sem nú er; duglegir læknar hafa svo mikið að gera hér í bænum, að þeir mundu ekki líta við kenslunni fyrir þessa borgun.