16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Forseti (M. A.):

Það er satt, sem hv. formaður skattamálanefndarinnar segir, að hér hafa legið fyrir tvö frv. sama eðlis; en einmitt þess vegna hefi eg látið líða miklu lengri tíma til að taka þetta frv. á dagskrá heldur en nokkurt annað mál. En eg sá það eftir rækilega íhugun, að það mátti með engu móti koma á dagskrá seinna en í dag, til þess að einhverjar líkur væru til þess að hægt yrði að afgreiða það. Eg vildi ekki hafa það á minni ábyrgð, svo að ekki væri hægt að segja síðar að fyrir drátt forseta á málinu hefði landið tapað svo og svo miklu fé.

Eg hefi venjulega orðið við tilmælum háttv. þingmanna um að taka mál út af dagskrá, og þó að mér þyki það leitt að gera nú undantekningu, þá sé eg mér ekki fært að verða við ósk háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) um að taka þetta mál út af dagskrá. En það er á valdi deildarinnar, hvort hún sér ástæðu til að vísa því frá, og skal eg bera það undir atkvæði háttv. þingdeildarmanna samkv. 34. gr. þingskapanna.