16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Valtýr Guðmundsson:

Mér fellur það mjög illa að Ed. þannig hefir tekið fram fyrir hendurnar á Nd. og komið með skattafrumv. til Nd. gremst mér það þó sérstaklega að hv. Nd hefir fallist á þetta.

En til þess að skilja þetta verða menn að vita sögulegan uppruna þessara ákvæða. Sögulegi uppruninn er sá, eftir því sem prófessor Matzen segir, að ákvæðin eru tekin eftir enskri fyrirmynd. Enska stjórnarskráin er fullkomnasta fyrirmyndin, sem til er, fyrir þingbundinni stjórn. Og í Englandi hefir því verið slegið föstu gegnum margar aldir, að neðri málstofan ein hafi rétt til að flytja frumvörp til laga um alla skatta og öll gjöld. Efri málstofan má ekki gera annað en játa eða neita. Svona langt hafa menn ekki farið hjá öðrum þjóðum. Menn hafa einungis heimtað að slík frv. væru fyrst lögð fyrir neðri deildina. Þó segir prófessor Matzen, að eftir grundvallarlögum Prússa megi Ed. ekki .gera neinar breytingar á fjárlögunum, hún megi ekki gera annað en samþykkja þau eða neita þeim. En aftur á móti er það ákveðið í stjórnarskrá Belgíu að sérhvert frv. til laga um tekjur eða útgjöld skuli fyrst lagt fyrir neðri deildina, en lengra er ekki farið. Sama ákvæði er í grundvallarlögum Dana og þaðan er það komið inn í stjórnarskrá vor Íslendinga.

Það er svo í öðrum löndum að það er stjórnin sem leggur öll slík frumv. fyrir þingið. Það á sér varla stað að einstakir þingmenn geri það. En sá óvani tíðkast hér, að þingmenn setjast niður og semja frumvörp á 5 mínútum og demba þeim inn í þingið. Þetta hefir líka sinn sögulega uppruna. Við höfum lengi orðið að berjast við útlenda stjórn, sem lítið hirti um framfarir landsins. Þingið varð því að taka til sinna ráða að reyna sjálft að efla framfarirnar og afla tekna til framkvæmdanna. En svo hefir það orðið, sem ekki átti að vera, að þessu hefir verið haldið áfram, eftir að innlend stjórn var fengin. Eg vil ekki saka hæstv. núverandi ráðherra um, að þessu er þannig varið nú á þessu þingi. Hann er löglega afsakaður, því að hann má ekki leggja frv. fyrir þingið nema hann fái til þess samþykki konungs og ríkisráðsins (Bjarni Jónsson: Þarf samþykki ríkisráðsins?) og til þess hafði hann engan tíma, svo sem allir vita. En eg vildi vona, að þessi óvandi legðist niður, og að það verði stjórnin sem leggur fjármálafrumvörp fyrir þingið eftirleiðis, eins og tíðkast annarsstaðar. Það er reyndar satt sem hæstv. ráðherra tók fram, að eftir 21. grein stjórnarskrárinnar hefir hvor deildin sem er, rétt til að koma fram með frumvörp og samþykkja þau. Það er alveg rétt, þetta er almenn regla. En engin regla er án undantekningar, og undantekningin er í 25. gr. Og eftir anda stjórnarskrárinnar nær þetta miklu lengra en bókstafurinn segir til, og þegar andann og holdið greinir á, er það andinn sem á að hafa yfirhöndina. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér í því, að það hafi komið fyrir áður að tvö frv. sama efnis hafi legið fyrir þinginu. Þó minnist eg þess ekki, og mér er nær að halda að þetta sé í fyrsta skifti. Það hefir ef til vill stundum mátt virðast að svo hafi verið, en þá hefir annað frv. skoðast sem stór breytingartillaga við hitt. —

Mér er eiginlega óskiljanlegt, hvað mikið kapp er komið inn í þetta mál. Eg get ekki séð, að það sé svo þýðingarmikið. Hæstv. ráðherra hefir upplýst að í stjórnarfrv. sé pennavilla, 50 aurar fyrir 30 aura, og þegar það er nú líka upplýst að 30 aurar eru ákveðnir í gildandi lögum, þá sé eg ekki hvaða ástæða er til að endurtaka það. Þar sem hv. þm. V-Ísf. hélt því fram að þetta ákv. væri nauðsynlegt, þar sem hér væri ekki um lýsi að ræða heldur síldarolíu, þá held eg að hann verði að koma með breytingartillögu við 1. gr., því að þar er síldarolía ekki nefnd á nafn, heldur síldarlýsi. Síldarolían verður því tollfrí eftir sem áður.

Annað ákvæðið er það, að tolla áburðarefni. Það hefir verið tekið fram, að þessi áburðarefni eigi að vinna úr fiskiúrgangi, þorskhausum, slori og öðru þess háttar. Eg held, að sízt ætti að leggja nokkur höft á það, að verðmæt efni verði unnin úr því, sem hingað til hefir verið talið með öllu ónýtt og verið fleygt í sjóinn. Eg held þvert á móti, að fyrir því ætti að greiða sem bezt, því að það hlýtur að vera hagur fyrir landið, að eitthvað fémætt verði unnið úr þessu. Að minsta kosti mætti bíða með að demba tolli á það, þangað til sést hversu arðvænlegt það verður. Það var öldungis rétt sem hv. þm. Dal. (B. J.) tók fram, það liggur slæmur orðrómur á okkur í útlöndum. Ef talað er um að fá útlendinga til þess að taka þátt í fyrirtækjum, sem á að reka hér á Íslandi, þá er vanaviðkvæðið: Á Íslandi er nokkuð sem heitir Alþingi, það leggur toll á alla skapaða hluti og hann tvöfalt hærri á útlendinga en landsmenn. Þetta hljómar sí og æ, og eg er sannfærður um, að það heldur áfram að hljóma þegar það spyrst út úr landinu að við ætlum að fara að selja útlendingum kolin hærra verði en landsmönnum. Þess vegna er varhugavert að samþykkja þennan lið, því að það yrði til þess að vekja enn betur athygli á, hvernig Íslendingar fara með útlendinga.

Þá er ekki annað eftir en fóðurmjölið og fóðurkökurnar. Það getur verið sanngjarnt að leggja toll á það. En ætli það sé svo mikils virði að það sé tilvinnandi að semja lög um það. Það hefir verið talað um að útvega landssjóði tekjur af því, en enginn þingmaður hefir getað gert neina áætlun um, hvað miklar tekjur það gefi landssjóði. Það lítur út fyrir að tekjuvonin sé svo lítil að menn kinoki sér við að gefa upplýsingar um það. Háttv. þm. Ak. (G. G.) ætti að vera þessu svo kunnugur að hann gæti það (Guðl. Guðmundsson: Eg hefi gert það). Svo miklu getur það ekki numið að landssjóð muni neitt um það. Aftur á móti getur land haft margt gott af því að þessi iðnaður komist hér á. Landsmenn mundu verala við þessa menn og fá hjá þeim atvinnu. Og svo er annað, þetta mundi bæta markaðinn fyrir þá síld, er Íslendingar veiða sjálfir. Síldarverðið fer eftir því, hvað mikið kemur af síld á markaðinn, og þegar síldin er notuð í þetta er von um að verðið hækki á saltaðri síld sem Íslendingar flytja út. Háttv. þm. V-Ísf. (M. Ó.) er á móti því að leyfa Norðmönnum að nota atvinnuvegi vora. Eg skal játa, að það væri heppilegra að Íslendingar gætu þetta sjálfir. En þá vantar fé eða þá vantar kunnáttu. Ef þetta reynist arðvænlegt lærist Íslendingum það fljótt. Hvernig var það með síldarveiðarnar? Norðmenn komu hingað og tóku síldina af okkur, en við höfðum það gott af því, að við lærðum að veiða síld. Og af því hafa sumir Íslendingar orðið sterkríkir, eftir því sem hér er kallað. En hér er nú reyndar flest kallað auðæfi, og sá maður ríkur, sem á meira en fyrir daglegum útgjöldum.

Eg sé ekki betur en töluvert mæli með því, að láta bæði frv. falla. Sérstaklega er ástæða til þess fyrir deildina að fella þetta frumv., þar sem það er svona tilkomið, hvað sem hún svo gerir við stjórnarfrv. Leyfi hún þetta óátalið lætur hún Ed. ganga á réttindi sin, og það er slæmt dæmi fyrir eftirkomendurna.