27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

4. mál, breyting á alþingistíma

Jón Jónatansson:

Háttv. þm. Ísaf. hefur nú hrakið þær ástæður allar, er fram hafa verið færðar með þessu frumvarpi, og það svo rækilega, að þar stendur ekki steinn yfir steini. Jeg skal því ekki fara mörgum orðum um frumv. að þessu sinni. Það er að eins eitt atriði í ræðu háttv. þm. V.-Sk., sem jeg vildi andmæla. Hann hjelt því fram, eins og fleiri fylgismenn þessa frv., að fyrir bændur væri sumartíminn langhentasti tíminn til þingsetu. Það er annars ekki hann einn, sem heldur þessu fram; þessi skoðun kemur fram hjá öllum þeim, er minsta þekkingu hafa á búskap og hag bænda.

Háttv. þm. V.-Sk. hjelt því fram, að heyskapurinn væri svo einfalt verk og óbrotið, „þetta gengi alt af sjálfu sjer,“ allir kynnu þau störf, og því gæti það eigi skift miklu fyrir bændur, þó þeir yrðu að vera fjarverandi, En jeg vildi þó mega benda á það, að heyskapurinn gengur einmitt ekki eftir neinum gömlum föstum reglum. Hjer er einmitt nú að renna upp nýbreytnisöld, ekki sízt í landbúnaðinum; má þar til nýbreytni nefna notkun ýmsra vjela, og svo ýmsar nýjungar í heyverkun, t. d, votheysgerð. Það er alls ekki sama, hver það er, sem stjórna á þessum nýbreytnisstörfum.

Í jarðræktinni er líka margskonar nýbreytni að ryðja sjer til rúms, nýjar ræktunaraðferðir. Þessu þarf bóndinn að fylgja með eigin augum, fylgja því, sem ræktað er, frá fræi til uppskeru, og oft kann enginn annar en hann að vinna þessi ýmsu nýju störf.

Því verður ekki mótmælt, að með heyskapnum og á sumartímanum er lagður grundvöllur undir hag og velmegun bóndans á næsta ári, og það er því fjarstæða að segja, að á þessum tíma megi bændur helzt að heiman vera.

Fyrst jeg á annað borð stóð upp, verð jeg að geta þess, að mjer finst kátlegt, að halda því fram, að ekki megi hafa bæði þing og háskólann samtímis hjer í húsinu. Þeir, sem börðust mest fyrir því, að háskólinn yrði á stofn settur, tóku það einmitt skýrt fram þá, sáu það strax af framsýni sinni, að engin minsta hindrun var í vegi fyrir því, að þetta gæti tekizt, en nú kveður nokkuð við annan tón hjá sumum þeirra.

Háttv. þm. V.-Sk. talaði um truflun og ónæði fyrir kennara og lærisveina háskólans, ef þing yrði á sama tíma, en varla geta orðið mikil brögð að því. Sú truflun yrði ekki meiri fyrir það, þó hvorttveggja sje í sama húsinu, heldur en þá af því, að þing og háskóli eru samtímis hjer í bænum, því ef þessi truflun stafar af því, að kennarar og stúdentar eru með allan hugann á pólitík, mundi það engu síður eiga sjer stað, þó þing og háskóli væru ekki undir sama þaki.

Mjer finst yfir höfuð, að ástæður þær, er fram hafa verið færðar með frumv., sjeu æði lítilvægar, og lítil rök enn komin fram fyrir því, að breyta þurfi þingtímanum. Og það verða allir að játa, að það er óheppilegt, að vera að hringla fram og aftur með þingtímann. Jeg verð því að telja frumv. þetta með öllu óþarft, og finn enga ástæðu til, að það nái fram að ganga, en þó vil jeg styðja tillöguna um nefnd í málið, að umræðunni lokinni.