21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Benedikt Sveinsson; Allir viðurkenna, að það sé skylda löggjafarvaldsins að leitast við að bæta kjör þjóðarinnar. Og eg þykist vita, að allir háttvirtir þingmenn hér vilji gjarna gera þetta.

Þegar þessu þingi slítur, fær þjóðin fregnir um all-margar og all-þungar nýjar álögur, sem koma niður á öllum stéttum. Þetta færir alþjóð heim sanninn um föðurlega umhyggju þingsins fyrir henni.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, sýnir ljóst, að þingið hefir ekki brugðið stefnu sinni, hvorki að því er snertir álögur á almenning, né hinni, að bera umhyggju fyrir einstökum mönnum og bæta hag þeirra, því það fer fram á að auka dagpeninga allra þingmanna utan Rvíkur um 3 kr., og t d. greiða þingmanni, sem á heima í Görðum á Álftanesi eða í Hafnarfirði, 20 kr. í ferðakostnað o. s. frv. Þetta má heita lofsverður áhugi á að bæta kjör þingmanna þ. e. landsmanna og að auka útgjöld hinna, sem ekki eru þingmenn, og þó landsmenn, „að nafninu“.