24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

5. mál, eftirlit með skipum og bátum

Lárus H. Bjarnason:

Eg vil strax geta þess, að eg er óundirbúinn að tala, þó að eg flytji nokkrar brtill. Eg hélt að þetta frumv. mundi ekki verða útrætt á þessu þingi en úr því líkur eru til að því verði ráðið til lykta, þá finst mér rétt að reina að laga galla sem á því eru og þinginu mundi verða vansi að. En með því að brtill. voru samdar í flýti, eftir að eg kom á þingfund í dag, þá eru gallar á þeim, og vildi eg spyrja hæstv. forseta hvort hann sæi sér ekki fært að bæta úr þeim.

Í fyrri brtill. við 3. gr. er farið fram á að „lögskráningarstjóri“ komi í stað „ráðningarstjóri“ þar og í fleiri greinum. En till. getur ekki átt við 3. grein 5. málsgr., vegna þess að lögskráningarstjóri er sama sem lögreglustjóri.

Í seinni brtill. við 3 gr. er farið fram á að setningin frá „og sem“ út málsgr. falli burt, en eg vil gera það að tillögu minni, að öll málsgreinin falli burt og vona að hv. deild leyfi að brtill. verði borin upp þannig.

Þá vil eg benda á, að í brtill. við 10. gr. vantar orðið „ekki“ undan orðunum „hefir fast aðsetur um borð“.

Þá skal eg víkja stuttlega að frumv. og brtill. Fyrsta brt. fer fram á að fella burtu tilvitnunina til siglingalaganna í 1. gr. Alþingi getur ekki verið þekt fyrir að láta frá sér fara frumv. þar sem vísað er til greinar í lögum sem ekki eru til. Eg býst því við að allir geti fallist á þessa brt. Eg vona að hæstv. forseti og deild leyfi að bera upp 3. brt. þannig að öll málsgreinin falli burtu, og samþykki hana síðan.

2. brt. mína verður að samþykkja, því að „ráðningarstjóri“ er ekki til að núgildandi lögum heldur „lögskráningarstjóri“.

Sömuleiðis vona eg að samþykt verði að breyta orðinu „látið“ í „ráðið“. Þá eru tvær brt. við 4. gr. Hin fyrri fer fram á að fella burt úr 1. málsgrein orðin „eða hafa aðsetur“ og er aðaltilgangurinn með henni að girða fyrir að skip úr Reykjavík verði skoðuð í Hafnarfirði; það gæti sem sé hugsast að vetrarlega skipanna inni í sundum eða suður í Hafnarfirði yrði skoðuð „aðsetur“ í lögsagnarumdæminu.

Seinni brt. við 4. gr. er nauðsynleg til þess að koma á jafnaði milli kaupstaða og annara héraða um uppástungurétt að skoðunarmönnum.

Hin fyrri brt. mín við 10. gr. er að eins orðabreyting, sem eg vona að öllum þyki betur fara. Síðari brtill. við sömu grein er efnisbreyting og álít eg hana nauðsynlega. Því eins og frv. er orðað, mætti stjórnarráðið hafa reglugerð sína linari en ekki strangari heldur er þar um rædd félög leggja til, en það hefir auðvitað ekki verið tilgangurinn, enda ekki rétt.

Eg vildi skjóta því til hæstv. forseta að hann sæi um að orðið „fiskiveiðafélag“ í þessari sömu grein (10.) væri ekki skammstafað. Það fer illa í lögum og er óvanalegt.

Brt. við 14. gr. er sjálfsögð, því ekki hæfir að láta ótiltekið hvert sektir skuli renna. Og auðvitað er eðlilegast að þær renni í landssjóð.

Ef tími hefði leyft, mundi eg hafa gert margfalt fleiri breytingartillögur við frv., sem Ed. hefir kastað höndum að alveg óforsvaranlega, að eg segi ekki meira, því enn þyrfti það mikið að lagast. En þessar breytingar verður að gera á frv. vegna sóma þingsins, með þeim má vera að það geti dugað til næsta þings.