19.07.1912
Sameinað þing: 3. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

Prófun kjörbréfa

Guðlaugur Guðmundsson:

Jeg get látið mjer nægja að vísa til álits meiri hluta nefndarinnar, eins og það liggur fyrir. Og finn í rauninni enga þörf á að bæta við, enda gaf ræða h. þm. Barðst. ekki tilefni til þess. Það sem h. minni hluti í máli þessu ber fram, er undantekningarlaust bygt á getgátum, sem ekki er unt að sanna. Eins og t. d. það, í hvaða hreppi hvort þingmannaefnanna hafi haft meira kjörfylgi. — Aðalatriðið, sem um er barizt, eru þessir tvíbrotnu seðlar og virðist enginn vafi leika á því, að samkvæmt 35. gr. kosningalaganna hljóta þeir að vera ógildir, úr því mótmælt er. Í þeirri grein stendur skýrt og tvímælalaust, að atkvæðaseðil skuli brjóta einu sinni, og hjer er um greinilegt brot að ræða gegn því ákvæði. Með þessu ákvæði er skapað fast form. Greinin er „formskapandi og regluskapandi“, svo sem minni hlutinn kemst að orði. Og sú gerð, sem fer í bága við form eða reglu, hlýtur að vera gersamlega ólögleg.

Háttv. minni hluti virðist gera nokkuð mikið úr símskeyti frá yfirkjörstjóranum í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Jeg er honum samdóma um það, að þetta atriði heyri ekki undir 38. gr. kosningalaganna, en annað og meira en það er líka ekki hægt að draga út úr símskeytinu.

Það hefur komið fram vottorð úr tveim hreppum um, að þar hafi kjörstjórar gert skyldu sína. Og af þeirri ástæðu á, eftir kenningu minni hlutans, að gera ógild 114 atkv. Er þetta sanngirni og rjettlæti? Jeg segi nei! Þá er þessi fullyrðing h. minni hluta um vitanlegt kjörfylgi algerlega gripin úr lausu lofti. Hver getur sagt um það, hvern kjósandi ætlar að velja áður en hann fer inn í kjörherbergið? Hann hefur leyfi til þess að segja við Pjetur og Pál hvað sem honum sýnist; er ekki bundinn við neitt.

Þá vil jeg og benda á það, að afar hættulegt getur það verið, ef þingið færi að taka tillit til þess, að undirskriftasmalanir hafi átt sjer stað. Það er ekki alt af hinn sanni vilji kjósendanna, sem stendur á pappír undirskriftasmalanna. Með þessu á jeg ekki við þingmannsefnið, sjera Kr. Daníelsson; en orð hefur leikið á, að smalarnir hafi beitt sjer fyrir málstað h. minni hluta af hinni mestu frekju.

En það, sem jeg legg mesta áherzlu á, er það, að mjer virðist háttv. minni hluti vilja beita ranglæti í þessu máli og fótum troða anda og ummæli kosningalaganna.