02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Framsögum.(Lárus H. Bjarnason):

Eg hygg að hæstv. ráðherra geti við nánari athugun orðið mér sammála um það, að þetta eigi ekki og megi ekki taka svo sem ráðherra eigi að hafa eftirlaun eftir fyrra embætti sitt sem viðbót við ráðherralaunin. Það liggur í orðinu „eftirlaun“.

Það getur ekki náð neinni átt að vísa til gildandi eftirlaunalaga, þegar hér er farið fram á nýtt princip. Þar er farið eftir embættistímalengd og launahæð 5 síðustu árin, tilsk. frá 1855 eða eftir tilteknu lágmarki, tiltekinni upphæð fyrir hvert embættisár, eftirl. frá 1904, en hér er farið fram á ákveðna eftirlaunahæð, hvort sem ráðherra hefir gegnt embættinu lengur eða skemur. Það er því algerlega rangt, að vísa til þeirra laga, sem á að útiloka. Satt að segja gat eg ekki búist við þessari athugasemd frá hæstv. ráðherra.

Annars held eg að það sé óþarfi að stæla meira um þetta. Ef menn vilja breyta einhverju í frv, þá er að koma fram með br.till. og mun nefndin gjarnan taka þær til athugunar.