23.08.1912
Sameinað þing: 7. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

105. mál, sambandsmálið

Bjarni Jónsson:

Það tel jeg mestu varða, að gera sjer ljóst, hvers konar samband menn vilja láta sjer lynda milli Íslands og Danmerkur. En þar næst verður að íhuga með hverju móti því verði helzt náð.

Nú tel jeg víst, að enginn Íslendingur vilji una neinu því sambandi, sem veitir eigi Íslandi fult jafnrjetti við hina sambandsþjóðina. Og er þá á það að líta, milli hverra sambanda getur verið að velja. Sum sambönd eru svo, að fullveldið er hjá hverri þjóðinni um sig, en önnur sambönd svo, að það er hjá sambandinu sjálfu eða sambandsstjórninni. En fullveldið er, svo sem menn vita, full og óskoruð umráð yfir utanríkismálum og hermálum, jus legatíonum, sendiherrarjettur, jus foederum et tractatuum, samninga- og sáttmálarjettur, og jus belli ac pacis, ákvæðisrjettur um stríð og frið.

Þessi sambönd eru:

1. Konungssamband, (personalunion). Þar eru ríkin í sambandinu fullvalda, svo að annað þeirra gæti jafnvel verið í ófriði, þótt hin væru í friði. Þessa sambands eru mörg dæmi: Prússland og Neuenburg 1707—1857; Niðurlöndin og Luxemburg 1815—1890; Belgía og Kongoríkið 1885 —1908; og eftir skoðun Austmanna Noregur og Svíþjóð allar götur frá 1814—1905.

2. Ríkjasamband (Staatenbund). Þar eru ríkin í sambandinu fullvalda með sama hætti og í konungssambandinu, en sambandið getur þó verið málsaðili gegn öðrum ríkjum í sumum málum. Dæmi er Þýzka ríkjasambandið (Der Deutsche Bund) 1815-1866.

3. Sambandsríki (Bundesstaat). Þar er fullveldið í höndum sambandsins, þótt stundum sje ríkjum þeim, sem í sambandinu eru, fengin takmörkuð völd yfir sumum fullveldismálunum. Dæmi er; Sviss eftir stjórnarskránni frá 29. maí 1874; Bandaríkin í Vesturheimi eftirstjórnarskrá frá 17. september 1787; Þýzka ríkið eftir 1866, en þar hafa hin einstöku ríki sendiherrarjett og sáttmálarjett takmarkaðan í ennfremur Mexiko frá 1857; Argentína frá 1860; Brasilia frá 1891; Venezuela frá 1893.

4. Málefnasamband (Realunion). Þar er grundvallarreglan sú, að fullveldismálin eru að öllu leyti í höndum sambandsins, þ. e. a. s. hermál og utanríkismál. Þá er stundum svo fyrir komið, að hin einstöku ríki hafa rjett til að gera verzlunarsamninga, senda til annara ríkja rœðismenn (consules; viðskiftaerindrekar), svo sem er hjá Austurríki og Ungverjalandi síðan 1867.

Þessi sambönd eru öll jafnrjettissambönd, og mætti vel una við hvert þeirra sem væri þess vegna, að Ísland yrði ekki undirlægja bandamanns síns, nema önnur rök renni til. Er því nú á að líta, hvert þeirra vœri bezt fyrir Ísland og Danmörk, og hverju þeirra mundi auðveldast að ná.

Jeg byrja þá á hinu síðasta, málefnasambandinu, af því að sumir bræðingsmenn hafa sagt, að þeir vildu ná málefnasambandi með tillögum sínum. Það er nú raunar rangt, því að hærra mundu aldrei tillögur þeirra hossa Íslandi, en að það hengi í því að vera það hálfríki (Halbstaat), sem hefði minst vald allra hálfríkja veraldarinnar. — En setjum nú svo, að vjer vildum ná málefnasambandi við Dani, hvernig mundi það endast og hversu auðfengið mundi það?

Ef þeir vildu ganga í jafnrætt málefnasamband við oss, þá yrðu þeir fyrst að afsala sjer fullveldi sínu, sem þeir hafa, og fá það í hendur sambandinu „Ísland — Danmörk“. Mun öllum þegar ljóst, að það mundu þeir aldrei vilja gera, heldur velja miklu fremur það sambandið, sem ekki sviftir þá neinu, þ. e. konungssambandið. Þetta verður þó ennþá skýrara, ef menn hugleiða með hverjum hætti þetta samband yrði milli svo misstórra þjóða. Sambandsstjórnin, eða stjórn hinna sameginlegu mála, þ. e. fullveldismálanna, yrði að vera í vorum höndum að helmingi, ef vjer ættum að ná jafnrjetti. En það mundi koma óþolanlega ranglátt niður á Dönum, svo sem fljótsjeð er af því, að vjer hefðum þá hálf yfirráð yfir flota þeirra og her, sem vjer leggjum ekkert fje, og fl. þess háttar. Slíkt væri svo rangsleitið við þá, að þeir mundu aldrei að því ganga og að vjer gætum ekki einu sinni farið fram á það. — Þá er hinn máttuleikinn, að vjer hefðum stjórn sambandsmálanna að tiltölu við fólksfjölda. En þá væri rjettur Íslands fyllilega fyrir borð borinn. Því að þá hefðum vjer aldrei meira en eitt atkvæði gegn þrjátíu. Jafnrjettið í málefnasambandinu er því draumur og hugarburður, þar sem svo misstórar þjóðir eiga hlut að máli. Þessi vegur er því alsendis ófær.

Sömu annmarkar væru á því, að sameina ríkið Ísland og ríkið Danmörku í eitt sambandsríki. Því að þar eru fullveldismálin og í höndum sambandsstjórnarinnar.

Þá eru eftir hin samböndin, þar sem hin einstöku ríki hafa fullveldi. Hjer á landi hefur mikið verið rætt um konungssambandið, því að alt frá Þingvallafundinum 1907 hefur krafan um það verið stefna þjóðarinnar og þeirra manna, sem voru í meirihluta á þingunum 1909 og 1911. Þetta er og í fullu samræmi við þann rjett, sem vjer eigum og höfum jafnan átt að rjettum lögum eftir sögunnar dómi. Hafa þar engir á móti mælt nema þeir einir, sem lítt eru merkir og fáum kunnir, enda óþarft að eiga orðastað við þá. Og auk þess er þetta hið langbezta samband fyrir svo misstórar þjóðir, sem hjer er um að ræða. Mætti það helzt koma Íslendingum og Dönum að liði, því að þá gæti hvor þjóðin um sig notið sín, og þeim mætti báðum sama eftir málavöxtum, að gera slíkt samband. Vjer ljetum eigi fullveldisrjett vorn fyrir neitt nje verzluðum með hann, og Dönum væri hin mesta sæmd í því, ef þeir brytu svo odd af oflæti sínu, að þeir ljetu oss ná skýlausum rjetti vorum.

Þetta mál er áður margrætt og er því eigi þörf að fjölyrða um það, enda sje jeg, að menn gerast óþolinmóðir og vilja síður hlýða á þau skýlaus rök, sem sýna málstað núverandi meiri hluta í allri sinni nekt, Jeg læt mjer því nægja að vísa til þess, sem áður hefur verið sagt um þetta mál. Og því fremur má jeg vera fáorður hjer um, að engin rökrjett mótmæli hafa komið fram gegn því, að þetta sje hið eina samband, sem þjóðum þessum getur orðið báðum til gagns og sóma. Enda er fásinna, að vilja neita þeim eðlilegu orsökum, sem jeg taldi áður í ræðu minni til þess, að ekkert annað samband gæti verið um að tala en konungssambandið.

Menn vita það, að Danir neituðu að taka frumvarp alþingis 1909 til meðferðar. Var það brigðmælgi af þeim, því að svo var frá upphafi til ætlazt, að það gengi milli þinganna, þar til er samkomulag næðist. En þótt þeim færi eigi betur en hjer var sagt, þá samþykti þó þingið 1911 þingsályktun um að skora á stjórnina, að koma því til leiðar, að Danir tækju til umræðu frumvarp þingsins 1909. Mjer er kunnugt um, að stjórnin gerði sjer far um þetta; árangurinn varð enginn af því.

Þar af má ráða, að Dönum er eigi enn í hug að samþykkja það samband, sem Íslendingar krefjast, hið eina, sem vjer getum gengið að með óskertum þjóðarheiðri. Hins vegar gengum vjer svo langt til samkomulags 1909, sem fært var. Liggur því í augum uppi, að slík þingsályktunartillaga er óþörf og út í bláinn. Vilji þingið gera nokkuð, þá á það að krefjast þess af stjórninni, að hún reyni að fá samþykki Dana til þess, sem meirihlutafrv. 1909 fór fram á, að hún láti þá vita það skýrt og skorinort, að Íslendingar vilji ekki semja á neinum öðrum grundvelli, og muni aldrei verzla svo með þjóðrjettindi sín, að þeir láti höfuðatriði hans gegn því, að Danir viðurkenni nokkur aukaatriði þess sama rjettar; þar sem við eigum hann þó fullan og óskertan og í öllum atriðnm.

Þá kem jeg að hinu atriðinu, með hverju móti verði náð þeim samningum, sem vjer viljum hlíta. Vegurinn er ekki að hvarfla úr einu í annað, heldur hitt, að halda einarðlega og óhikað fram rjettum málstað vorum, þar til er sigur fæst, hvort sem þess verður langt eða skamt að bíða. Er því engi þörf á slíkum ályktunum nú, enda eigum vjer ærinn starfa innanlands. Vjer eigum það óunnið ennþá, að Íslendingar verði allir á eitt sáttir um að fylgja með afli kröfum Þingvallafundarins og þingsins 1909 og 1911. Jeg vona, að þess verð eigi langt að bíða, að þeir menn, er stóðu þá á öndverðum meiði, fallist á mál mitt og þeirra góðra manna, sem fylla þann flokk. Þegar svo er komið, má gera slíka tillögu, sem hjer er farið fram á.

En sje það gert nú, eða nokkur önnur leið farin en sú, er jeg nefndi fyr, þá veikir það málstað vorn og minkar sigurvonir vorar. Með því væri Dönum gefið í skyn, að þjóðin hefði breytt skoðun sinni, er kom svo bert fram í kosningunum 1908. En það hefur hún eigi gert, og er enginn flugufótur til, að halda því fram, því að engar kosningar hafa farið hjer fram um þetta mál síðan 1908. En mjög mundi það spilla fyrir oss, ef Danir hefðu ástæðu til að halda, að þjóðin vildi selja rjett sinn og una nokkru því sambandi, sem væri eigi jafnrjettissamband.

Jeg er því algerlega mótfallinn tillögunni, nema því aðeins, að við hana yrði bætt: á grundvelli Þingvallafundarins 1907.