17.08.1912
Efri deild: 27. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Jósef Björnsson:

Það var að eins örstutt athugasemd, er jeg vildi gera.

Háttv. framsögum. misskildi algerlega orð mín. Hann hjelt, að jeg hefði sagt, að hin siðferðislega hætta hyrfi algerlega, ef salan á lotteríseðlum væri takmörkuð. En slíkt var ekki hugsun mín. Jeg sagði, að nú streymdu inn í landið seðlar frá útlöndum. Jeg sagði ennfremur og lagði áherzlu á það, að við gætum ekki varazt, að seðlar streymdu inn í landið annarstaðar að, nema með því móti, að banna það stranglega. Og þótt slíkt yrði bannað, væri jeg efins um, að því lagafyrirmæli yrði framfylgt svo, að það kæmi að gagni. En úr því þessu er nú þannig háttað, að þjóðin kaupir töluvert af lotteríseðlum, þá vildi jeg, úr því sem gera væri, reyna að hafa eitthvað í aðra hönd, að þjóðin taki það í aðra höndina, sem sem hún lætur úr hinni, en ljeti ekki útlendinga draga það fje alt burtu úr landinu, sem landsmenn nota þannig. Jeg vil hvorki í þessu nje öðru meta útlendinga meira en okkur sjálfa, svo sem mjer virðist sumir gera, því það tel jeg engu síður rjettmætt, að nefna endemishátt, en sumt það, sem einkent var nýlega með endemisnafninu í háttv. Nd. Þetta var hugsun mín og annað ekki.