12.08.1912
Efri deild: 22. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

91. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jens Pálsson, (flm.):

Getur vel verið, að háttv. 3. kgk. þm. hafi haft rjett fyrir fyrir sjer, er hann sagði, að það kæmi ekki að gagni, að koma upp um botnvörpunga, ef sönunargögn vöntuðu. En það vona jeg, að hafi komið fram í ræðu minni áðan, að með því að koma upp um botnvörpunga, þá hvekki menn þá frá landhelginni. Að engin not verði að slíkri strandgæzlu að get jeg ekki skilið. Vitanlega eru það fáir, sem geta mælt, svo að gagni komi. En oft sópa þeir svo nálægt landssteinum, að enginn vafi getur leikið á því, að þeir sjeu í landhelgi. En það fæ jeg ekki skilið, að hjerlendir menn geti ekki sannað brotið með eiði; að ekki geti dugað sannanir, sem hjer á landi eru látnar duga; að þær hinar sömu hafi ekki gildi gagnvart útlendingum; væri svo, þá væru sannarlega tvenn lög í landi voru.

Að þeir stöðugt breiði yfir númer sín, er varla rjett; það er þeim óleyfilegt að gera, og algengt getur það ekki verið, því ella mundu menn ekki hafa getað kært þá eftir númerum þeirra, sem menn þrátt og oft hafa gert, og hefur svo varðskipið náð í þá síðar; þá hafa einatt sannast á þá brotin. Þetta má sanna með mörgum dæmum, og gæti jeg útvegað skýrslur og sönnunargögn um þetta til 2. umr., og sýnt fram á, að landssjóður hefur fengið allmikið sektarfje á þennan hátt.