24.08.1912
Efri deild: 35. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Eiríkur Briem:

Það sem ræður atkvæðagreiðslu minni í þessu máli, er ekki neitt það, er tekið hefur verið fram við þær umræður, er farið hafa fram um það hjer í deildinni, heldur annað. Jeg átti sæti í nefnd þeirri, er fyrir nokkrum árum var skipuð til að gera tillögur um kirkjumál vor, þar á meðal sameining prestakalla. Þar kom það til skoðunar, hvort nokkur möguleiki væri á þessari sameiningu þar norður frá, sem nú er komin í framkvæmd. Sjálfur er jeg persónulega ókunnugur á þessum slóðum — þekki ekkert til þar nyrðra, nema það, sem jeg hef kynt mjer á korti. En þá sýndist mjer þessi sameining ekki geta komið til mála, en hún var samþykt í Nd. á þinginu 1907, og var þar steypt saman í eitt prestakall Kelduhverfi, Hólsfjöllum, Axarfirði, miklum hluta Melrakkasljettu og Núpasveit, og er jeg ekki óhræddur um, að mjög miklir annmarkar reynist á þessari sameiningu, og jeg get ímyndað mjer, að tillögur kunni að koma fram um breytingar á þessu fyrirkomulagi. En enn sem komið er, er engin reynsla komin í ljós um það, hvort þessi sameining á Garðs-, Skinnastaða- og Presthólasóknum og að nokkru leyti Fjallaþingum fær staðizt. En ef reynslan skyldi nú sýna, að engir möguleikar væru á henni; þá þarf að nota Presthóla áfram sem prestssetur. Mjer sýnist því engin fyrirhyggja í að selja jörðina, fyr en reynsla er leidd í ljós um þetta. Og því mun jeg greiða atkvæði móti þessu frumv.