10.08.1912
Efri deild: 21. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

71. mál, kolatollur

Steingrímur Jónsson:

Jeg skal ekki lengja umræðurnar mikið að þessu sinni. Jeg er í flestum atriðum samþykkur háttv. 2. kgk. þm. og háttv. þm. Ísfjk.

Háttv. flm. sagði í byrjun ræðu sinnar um málið. að hjer væri um neyðarúrræði að ræða. Þetta er alveg rjett. Og það er að mínu áliti aðalmeðmælin með frv., að það er neyðarúrræði.

Það voru að vísu örfá atriði, er jeg vildi benda á.

Háttv. flm. sagði í ræðu sinni, að þetta frv. væri að því leyti gagnstætt öðrum tillögum til að bæta úr landsfjárhagnum, er nú lægju fyrir þinginu, að það væri framhald þeirrar tollstefnu, er fylgt hefur verið hjer á landi. En þetta er ekki nema hálfur sannleikur. Stefnan hefur í fyrsta lagi verið sú, að hafa tollstofnana fáa og háa, og í öðru lagi sú, að leggja tollana á munaðarvöru, en ekki nauðsynjavörur, eins og hjer er farið fram á, þar sem frv. ætlast til, að tolluð sje sú nauðsynjavara, er kalla má helztu framleiðsluvöru vora. En aðalatriðið er samt ekki þetta, heldur hitt, að tollurinn, sem frv. gerir ráð fyrir, er óeðlilega hár. Jeg veit ekki, hvort háttv. flm. frv. hafa athugað það, hversu hár tollurinn í rauninni er. Jeg geri ráð fyrir, að 80 þúsund „tons“ flytjist til landsins af kolum“. Meðalverðið á tonninu, þegar kolin eru flutt í stórum förmum, hjer á höfn er 14—15 kr. Jeg miða ekki við það verð, sem kol eru seld hjer við í ár, því að það er óvenjulega hátt, heldur við vanalegt verð. Nú gerir frv. ráð fyrir 2 kr. tolli af tonninu. Tollurinn væri því nálægt 14% álagning á verð kolanna, Hann væri með öðrum orðum 4% hærri, en sá tollur, er milliþinganefndin taldi tiltækilegt að leggja á álnavöru. Að því leyti sem þessi vara er nauðsynjavara landsmanna, er tollurinn mjög óþyrmilegur, og hann er líka ennþá óþyrmilegri vegna þess, að minni hluti landsmanna ber hann, að kalla, að öllu leyti, sem sje sjávarútvegurinn og kaupstaðarbúar. Það er sagt út í loftið, að sveitirnar noti mikið af kolum. Bændur brúka mjög lítið af þeim. Það liggur í augum uppi, að ef hætta á að brenna sauðataði og nota það til áburðar, þá er leiðin til slíks ekki sú, að brenna kolum í stað þess (taðsins), að flytja þau langar leiðir á hestum, vögnum eða sleðum, heldur verður þá að hafa til eldsneytis mó, surtarbrand og skóg, sem nú fer vaxandi. Það er að minsta kosti það, sem aðallega verður notað, en hitt nær ekki neinni átt, að mikill kolaflutningur geti átt sjer stað til sveitanna. Þá er annað atriði, sem jeg vildi minnast á, og háttv. 2. kgk. þm. líka drap á. Ef hjer um bil helmingurinn af kolum þeim, sem fluttur er til landsins, er notaður af landsmönnum sjálfum, ef landsmenn nota t. d. 35 þús. smálestir til „trollara“, annarar framleiðslu og til eldsneytis, þá er hitt selt útlendingum til siglinga. Það er því auðsætt, að með þessu frv. er lagður skattur á verzlun við útlendinga. Af þessu stafar mesta hættan af frv., ef það verður að lögum. Það er óeðlilega mikil hækkun, að kolaverðið hækki um 14%, og því er hætt við, að þetta hafi í för með sjer gagnstæðar afleiðingar við það, sem háttv. flm. ætlast til. Með frv. ætla þeir að útvega landinu tollstofn, er auknar tekjur drjúpi af í landssjóð ár frá ári. En það er hætt við, að með svona háum tolli verði reyndin sú, að tekjurnar fari minkandi ár frá ári.

Jeg vil leyfa mjer að benda á eitt dæmi. Setjum svo, að enskt „trollara“-fjelag kaupi hjer 5.000 tonna af kolum á ári. Með þessu frv. er því, ef það verður að lögum, gert að gjalda 10 þús. kr. í skatt. Það er mikið fje, er verja má til allmargra hluta. Það er als ekki ólíklegt, að það mundi koma sjer upp kolastöðvum á Færeyjum eða láta flytja þau hjer upp undir landhelgislínuna, og hafa þar fljótandi kolabirgðir. Það mundi svo skipa kolunum í botnvörpunga á sjónum úti. Þetta er að eins eitt dæmi þess, hvaða áhrif frumv. getur haft. Landssjóður mundi þá ekki eingöngu verða af tollinum, heldur mistu landsmenn úr greipum sjer ágóða af viðskiftum og verzlun við útlendinga.

Jeg álít því, að það þurfi að athuga frumv. þetta vel, einkum það atriði, hvort tollurinn sje ekki alt of hár. Ef hann er lækkaður, getur vel farið svo, að jeg verði með frv. sem neyðarúrræði. Jeg leyfi mjer því að stinga upp á, að því verði vísað til nefndarinnar í frv. til laga um árgjald af verzlun og viðskiftum við útlönd. Jeg legg þetta til í fyrsta lagi af því, að jeg vil eigi fella það, ef aðrar leiðir reynast ófærar, því að þá má ef til vill nota það sem neyðarúrræði. Í öðru lagi sting jeg upp á þessu af því, að á frv. eru agnúar, er laga þarf áður, en hægt er að samþykkja það, t. d. í 2. gr., þar þarf að athuga, hver tök sjeu á að innheimta toll af kolum, er geymd eru á floti í landhelgi.

Endurtek jeg það svo að síðustu, að jeg sting upp á, að frv. verði vísað til nefndarinnar í frv. um árgjald af verzlun og viðskiftum við útlönd.