13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

71. mál, kolatollur

Sigurður Eggerz:

Mjer er sönn gleði að hinum þægilegu sinnaskiftum, sem háttv. 4. kgk. hefur tekið, þar sem hann hefur nú ekkert á móti því, að tolla kolin, enda er það ekki nema eðlilegt, þar sem allir virðast nú vilja tolla þau.

Það var annars harla einkennilegt stríðið um kolatollinn við 1. umræðu; það var eins og helgur dómur, sem hjer væri um að ræða. Allir hrópuðu og kölluðu, að ekki mætti tolla kolin, og þetta var þeim mun einkennilegra, sem eptir öllum tollafrumvörpum, er liggja fyrir þinginu, á að tolla kolin. Eftir öðru frumvarpinu í neðri deild nemur tollurinn 5% og eftir hinu frumvarpinu þar 3%, og hjer í deildinni er það helmingi hærra en aðrar vörur (Steingrímur Jónsson: Þingm. hefur ekki lesið frumv.). Jú jeg hef lesið það vel, af flestum vörum er það 1%, en af kolum 2% (Stefán Stefánsson: Ekki aðeins á kolum).

Háttv. 4. kgk. sagði, að tollurinn væri of hár, sagði, að hann næmi 14% af nettoverði kolanna, en þegar um tollálögur er að ræða, tel jeg rjett, að leggja útsöluverð kolanna til grundvallar, og þó það sje ekki reiknað meira en 25 kr. af tonni, en það er meira nú, verður tollurinn ekki meira en 8% af andvirði þeirra. Að öðru leyti þykir mjer rjett, að geta þess, að við flutningsmennirnir höfum jafnvel í hyggju, að koma með breytingartillögu í þá átt, að færa tollinn niður í 1 kr. 50 au. af hverju tonni.

Þá mintist sami háttv. þingm. á, að þessi tollur kæmi harðar niður á sjávarútvegnum en landbúnaðinum, og tók þar sjerstaklega fram í því sambandi kolanotkun í Skaftafellssýslum. En þessi samanburður hans var mjög óheppilegur fyrir margra hluta sakir, sem jeg get sjerstalega borið um sem kunnugur maður þar eystra.

Kolanotkun hefur aukizt þar mjög mikið, og hún eykst árlega hjá bændum, og síðan jeg kom í Skaftafellssýslu, hefur hún aukizt yfir helming. Svo gætti háttv 4. kgk. ekki að því, að bændur þar kaupa ekki öll kol sín í Vík eða Hornafirði, heldur kaupa þau ekki hvað minst á stranduppboðum, sem eins og allir vita eru ekki fátíð þar eystra.

Þá sagði háttv. 4 kgk. að jeg hefði talað hjer, eins og jeg væri að tala við kjósendur mína.

Mikil skelfileg goðgá, eins og jeg sje ekki umboðsmaður þeirra! Annars kann jeg mjög illa við það, þegar verið er að tala um það hjer í háttv. deild í lítilsvirðandi róm, að þessi eða hinn sje að tala fyrir kjósendur. Jeg verð nefnilega, að líta svo á, að það, sem jeg segi við kjósendur mína, það eigi jeg að geta sagt hjer í háttv. deild, og það sem jeg segi í háttv. deild. það eigi jeg að geta sagt við kjósendur mína. En háttv. 4. kgk. þm. þarf ekki að taka tillit til kjósandanna, hann er kominn aðra leið inn í þingsalinn!

Þá sagði sami háttv. 4. kgk. þm., að fátæklingarnir notuðu meiri kol en efnamennirnir (Steingr. Jónsson: Þingm. gleymir orðinu hlutfallslega), og hef jeg sjaldan heyrt haldið fram hlægilegri fjarstæðu hjer í þingsalnum. Fátæklingarnir, er kaupa kol til að elda, en hafa ekki efni á að hita híbýli sín, en verða, því er nú ver og miður, að sitja í köldum eða hálfköldum herbergjunum, en efnamennirnir, sem auk þess að nota kolin til eldunar, hita altaf fleiri stofur, og það vænti jeg, að háttv. 4. kgk þm., sýslumaðurinn á Húsavík, muni gera.

Háttv. 4. kgk. þm. sagði ennfremur, að ef kolatollurinn kæmist á, þá mundu botnvörpungarnir flytja frá landinu, en þetta er ekki rjett athugað hjá háttv. þm. því með ekki hærri tolli, en hjer er gert ráð fyrir, væri það mikið dýrara fyrir botnvörpunginn. Í samanburði við þetta skal jeg víkja að díselmoturunum, er var minst á við 1. umræðu þessa máls. Það sjá allir strax og þeir gæta að því, að kolatollurinn, er botnvörpungur hver greiðir, er svo lítill, að hann er ekki nema örlítið brot af því, er diselmotor kostar, svo þeim dytti ekki í hug að kosta þá breytingu, því það væri tap eitt. Þessi ástæða er því aðeins grýla, sem er þyrlað upp á móti frumvarpinu.

Þegar verið er að tala um það, að tollur þessi sje hár á íslenzku botnvörpungunum, þá verða menn að gæta að því, hvað útgerðin kosrar als, og mun þá koma í ljós, að þetta nemur ekki 2%— af útgerðarkostnaðinum; auk þess verður að gæta þess, hversu þeir borga sig vel. Og að það sje rjett, að þeir borgi sig vel, má bezt sjá á því, hversu bankarnir hjer sýna þeim mikið traust, og lána þeim mikið fje, og eru þeir þó ekki vanir að hætta fje sínu. Og ennfremur sjest það, hvernig þeir borga sig, á því, að af kappi er verið að mynda hlutafjelög til botnvörpureksturs.

Háttv. 4. kgk. þm. talaði ennfremur um það, hvort það gæti ekki orðið frumv. til staðfestingarsynjunar, ef að tollur yrði lagður á útlendu botnvörpungana. Mjer þykir þessi ummæli hins háttv. þm. næsta kynleg, einkum er þess er gætt, að við leggjum á okkur sjálfa jafnháan toll. Þessu vjek öðruvísi við um kolaeinkaleyfið, því þar var lagt hærra gjald á útlenda, en innlenda menn.

Og ef við ekki fáum að ráða því sjálfir, hvaða gjöld við leggjum á okkur, þá er mjer spurn, hvað verður þá um ríkið, sem verið er að stofna bak við tjöldin?

Og jeg býst við því, að þjóðin muni sjá það, þó augu þingm. sjeu lokuð fyrir því, að þessi tollur sje einkar hagkvæmur vegna þess, að útlendingar greiða meir, en helming af honum.

Þá mintist háttv. 4. kgk. þm. á 2. gr. frumv. og hafði við hana að athuga, að ákvæðin um, að innheimta má samkvæmt frumv. toll af kolum, sem umskipað er í önnur skip í landhelgi utan hafna, mundi brot á almennum siglingareglum. Þetta hygg jeg varla rjett athugað, því viðverðum að líta svo á, að við ráðum yfir okkar eigin landhelgi. En annað mál er það, að lögreglustjórar mundu ekki hafa nein tök á, að innheimta toll í þessum tilfellum, og ákvæðið því í sjálfu sjer ekki praktiskt, auk þess sem í flestum tilfellum mundi ókleyft, að umskipa kolum utan hafna, og mætti því gjarnan binda ákvæðið við hafnir. Sjó hjer við land er víðast svo háttað, að slík umskipun er svo erfið, að hjer er engin veruleg hætta á ferðum, að komizt verði undan tollinum við umskipun utan hafna. Jeg býst þá við, að við flutnm. komum fram með breyt.till. í þessa átt við 3. umr. En hvað viðvíkur því, að frumv. mundi ekki verða staðfest, þá mundi jeg hafa leitað mjer álits hæstv. ráðherra um það efni, hefði hann verið hjer í deildinni, þó jeg, eins og jeg hef áður tekið. fram, sjái þar enga hættu á ferðum.