09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Pétur Jónsson:

Eg er þakklátur hv. stjórn fyrir að hafa komið með þetta frv. á þingið. Frv. er í öllum aðalatriðum það sama, sem eg og hv. 1. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) fluttum inn á þing í fyrra eftir samráði við landsímastjórann. Eg er stjórninni þakklátur, ekki af því, að mínu kjördæmi sé nokkur hagur að frv., ef það verður að lögum, heldur af því að með frv. er fullnægt þeirri hugsjón, sem eg hefi barist fyrir, að komið sé á föstu skipulagi í aðal framkvæmdamálum landsins, atvinnumálum og samgöngumálum, líkt og gert hefir verið í vegamálum, og að girt sé fyrir sem mest má verða hreppapólitík og sundrung í þeim efnum. Með þessu frumv. er séð fyrir því, að þær símalagningar gangi á undan, sem þarfastar eru. Eftir því sem menn hafa talað hér í þessu máli, vakir það ekki fyrir mönnum að haga símalagningunum eftir þörfum, heldur vakir fyrir sumum nokkurs konar jafnréttiskrafa, án tilits til þess, hvernig símarnir borgi sig. Þar sem líkindi eru til að mest verði viðskifti við símann, þar er hans mest þörf. Þetta er líkt og með samgöngur á sjó; skipanna er engi þörf á þá viðkomustaði, þar sem þau geta engi viðskifti haft. Þetta sýnir, að það er ekki rétt að leggja jafnréttiskröfuna til grundvallar við símalagningar.

Það var hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), sem hélt fram þessari jafnréttiskröfu. Hann áleit, að fyrst sími væri komin í eina sveit, þá ætti hver sveit landsins réttlætiskröfu til hins sama. Ef fullnægja hefði átt þessari réttlætislogik hans, þá hefði verið bezt að síminn hefði aldrei komið í nokkura sveit. Þá hefði verið rétt að fleygja í sjóinn þeim 300 þús. kr., er St. nordiske bauð fram til þess að sími væri lagður til Reykjavíkur, leggja þann síma fjallvegi og öræfi alla leið austan af Seyðisfirði, án þess við hefði komið í nokkurri sveit. Með því móti hefðu allar sveitir orðið jafnar. Það mun ókleift að leggja síma í hverja sveit á landinu, og því er valin sú leið, sem frv. fer, að síminn komist í sem flestar sveitir landsins, þannig að þeir staðir, sem standa jafnfætis þeim, sem þegar hafa fengið síma, standa fyrst í frv. Í öðrum flokki er skipað kauptúnum og helztu veiðistöðum, vitanlega til þess að þau dragist ekki aftur úr. Þetta hefir að nokkru verið tekið fram í framsögunni, svo að eg þarf ekki að fara nánara út í það. En ef svo miklu yrði hrúgað inn í 2. fl., að ekki yrði lokið við að leggja símana í þeim flokki á skömmum tíma, þá álít eg lítið unnið við frumv., og þá er útgert um það skipulag, sem frumv. miðar að. Þetta segi eg sérstaklega vegna þeirra brt., sem nú liggja fyrir, t. d. brt. um símalagning til Súgandafjarðar; eg er raunar ekki velkunnugur þar, en þó hygg eg að sú lína standi ekki jafnfætis 2. fl. línum, og veit með vissu, að hún stendur ekki framar sumum línum í 3. fl. Enn freklegar á þetta sér stað um brt. hv. þm. Dal. (B. J.) um línu, sem liggi um Ásgarð til Tjaldaness. Það er sanngjarnt, að sú lína sé i 3. fl., þótt ekki standi hún eins framarlega og flestar línur í þeim flokki. Það er sprottið af ókunnugleika hjá háttv. þm. Dal., að segja að þessi lína standi öðrum framar í þessum flokki. Mér er kunnugt um þetta og hefi margsinnis borið mig saman við landsímastjórann, sem er fyllilega samdóma, og er hann líklega fult eins fær að dæma um þetta og hv. þm. Dal. (B.J.). Það er ekki rétt að gera einum hærra undir höfði en öðrum, að öðru jöfnu. Að samþ. þessar 2 síðastnefndu brt., mundi draga þann dilk á eftir sér, að þær línur, sem framar standa, verða settar í 2. fl., t. d. 2 línur, sem eftir 3. umr. hér í fyrra voru í 2. fl. en samkv. þessu frv. eru í 3. fl., nfl. línan frá Akureyri að Höfða og línan frá Lækjamóti að Hvammstanga. Þeir mega skilja það, hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) og Dal. (B. J.), að ef hlaupið er í kapp með að færa til línurnar, þá muni eg ekki sitja hjá, þar sem eg hefi miklu meiri líkur til að koma fram mínu máli, vegna þess að sanngirnin er mín megin. Við það að koma sem flestum símum í 2. fl., lengist að eins tíminn, og er þá litið unnið.

Þá skal eg víkja að till. hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og hv. þm. Dal. (B. J.) um að kippa burt tillaginu frá héruðunum. Það hefir verið ekki svo lítil ásókn að kippa burt héraðatillaginu frá hliðarlínunum og í sambandi við það verið sagt, að hér væri um jafnréttiskröfu að ræða. En ekki geta allir fengið símann samtímis, né heldur er þörfin alstaðar jafnbrýn. Ef til vill er engi mælikvarði öruggari en hvernig símarnir borgi sig, og fer þá mælikvarðinn eftir því, hve mikið símarnir eru notaðir. Nú er það víst, að sumir símar borga sig ekki, og er þar þörfin þá minst, og eðlilegt að landssjóður skirrist við að leggja fé fram til slíkra síma. En þar sem aftur er veruleg þörf á símum, hafa menn sýnt það og eiga að sýna með því að vilja eitthvað á sig leggja. Ef þessi mælikvarði væri tekinn burtu, yrði ekkert að miða við um þörfina, annað en sögusagnir og ímyndanir. Hér er dálítil veila í, ef á að samþykkja línur, áður en vitað verður, hvort þær borga sig. Þótt eg sé ekki beint á móti símalagningu til Hornstranda og viti ekki, hvað hann kostar né hve mikið hann muni gefa í aðra hönd, þá get eg samt ímyndað mér að hann beri sig ekki. Eg skal þó ekki bera á móti, að til kunni að vera aðrar ástæður til að leggja þennan síma, og því er eg ekki svo mjög á móti því að setja hann í 3. fl., þótt eg álíti vafa á, að landssjóður eigi um langan tíma ráð á að leggja fé í síma, sem ekki hefir meiri líkur til að bera sig en þessi.

Eg vildi óska, að menn skirðust við að koma ruglingi á það skipulag, sem frv. hefir í för með sér, eins og það kemur frá stjórninni, þótt það sé mínu kjördæmi í óhag, samanborið við það hvernig frv. leit út eftir 3. umr. í fyrra. Þoki aðrir línum sinna kjördæma sinna upp nú, mun eg ekki gera mér grillu út af því að koma með brt. við 3. umr. um línur míns kjördæmis.