09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Framsögumaður (Jón Magnússon):

Eg álít það alveg óþarft að vera að halda nú langa tölu. Aðal-br.till. um að fella burt tillögin frá héruðunum, hefir þegar verið svarað af hæstv. ráðherra (H. H.) og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) og hefi eg engu þar við að bæta, en það vil eg taka skýrt fram, að nefndin er á móti br.till. á þgskj. 145, um að talsími til Súgandafjarðar sé færður í 2. flokk. Nefndin er sömuleiðis á móti br.till. 1 á þgskj. 182, um að hafa talsímalínu frá Búðardal að Tjaldanesi í 2. flokki. Oss, sem erum í nefndinni, liggur auðvitað í léttu rúmi, hvort það er beint tekið fram í frv. eða ekki, um línuna frá Snæfjöllum til Hafnar á Hornströndum, að hún skuli teljast í 3. flokki, annars er gert ráð fyrir þeirri línu á símakorti, sem liggur frammi á lestrarsalnum, og er hún þar talin í 3. flokki, þó ekki sé það beint nefnt í frv. Það sama er að segja um talsíma til Hlíðarenda, að báðar þessar línur geta falist í 4. gr. frv. þó þær séu ekki nefndar.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) fann að því, að landssjóður tæki tillög frá sýslunum og kallaði hann það, að taka fé hvar sem hann gæti klófest það; landssjóður leggur nú svo mikið af mörkum til sveitamála, sveitafélaganna, sem þó í raun réttri sveitarfélögin sjálf ættu að kosta, svo að hér verður þá ekki um neina klófesting af landsjóðs hálfu að tala.

Því hefir verið haldið fram hér í deildinni, að það mundi verða mikill gróði að síma til Súgandafjarðar, en eftir því sem landsímastjórinn segir, þá mun viðhald á þeim síma verða mjög svo dýrt; óhætt mun vera að treyst því að þetta sé rétt, því hann hefir sennilega athugað allar kringumstæður.

Annars hefi eg ekki, að svo stöddu, fleira að athuga.