09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Eggert Pálsson:

Eg vildi leyfa mér að gera að eins stutta athugasemd út af orðum háttv. formannns nefndarinnar. Hann sagði, að ef br.till. mín á þgskj. 143, við 2. gr. frv. yrði samþykt, þá yrði landssjóður að gefa eftir 4.000 krónur. Það má nú að vísu segja, að svo yrði, 4 þús. kr. á pappírnum, en í reyndinni yrðu það þó aðeins 3.000 kr. Eg ætlast nefnilega ekki til að br.till. nefndarinnar við 5. gr. frv. yrði samþykt, ef mín br.till. fengi fram að ganga, og fengi þá landsjóður 5.000 króna tillag til Víkursímans, en ef tillaga nefndarinnar yrði samþykt, þá fengi landssjóður þar að eins 4.000 kr., eða 1.000 krónum minna, heldur en ef mín br.till. gengi fram. Eg kom með br.till. mína engu síður með tilliti til Vestur-Skaftafellssýslu, en Rangárvallasýslu, sem ekkert verður fáanleg að leggja og ekkert getur lagt til Víkursímans, ef br.till. mín verður feld. En þá er hætt við að dregist geti nokkuð lengi að Víkurlínan komist á, þar eð búast má við, að jafn fámennri og fátækri sýslu, eins og Vestur-Skaftafellssýsla er, verði þungbært að greiða ein út af fyrir sig það tillag til Víkursímans, sem landsstjórnin heimtar, og eins líklegt að hinir eystri hreppar sýslunar vildu ekki gefa samþykki sitt til að greiða svo mikið fé úr sýslusjóði þótt getuna ekki vantaði, þar sem Víkursíminn kæmi engum hluta sýslunnar að verulegum notum nema syðsta hreppunum eða Mýrdalnum, því að fyrir austan Vík tekur við langur öræfasandur, sem mjög hindrar allar samgöngur þar.

Háttv. formaður nefndarinnar fann það einnig athugavert, að ef till. mín yrði samþykt, þá yrði stöðin í Vestmannaeyjum 1. flokks stöð. En þau vandræði í reyndinni mun nú stöðin í Vestmannaeyjum vera 1. flokks stöð og haldið jafn-lengi opinni sem 1. fl. stöð, þótt talin sé í 2. flokki. Svo að þótt hún yrði talin 1. flokks stöð í stað 2. flokks, þá breytir það í raun og veru ekki neinu, nema landssjóður tapar þessum 400 kr., sem Vestmannaeyingar nú leggja til reksturs hennar. En að vera að horfa í jafn smávægilegt sem þetta 400 kr. árstillag frá Vestmannaeyingum, finst mér ekki viðeigandi, síst þegar litið er á það, að þetta er sú línan, sem einna bezt borgar sig, og að minsta kosti er rétthærri til að teljast til 1. flokks en síminn frá Reykjavík til Ölfusár.