21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

11. mál, samningur um einkaréttarsölu á steinolíu

0570Eggert Pálsson:

Eins og nefndálitið ber með sér, þá hefi eg skrifað undir það með fyrirvara. — Eg get ekki verið hinum háttv. meðnefndarmönnum mínum samdóma um að fordæma alla einkasölu — sérstaklega ekki ríkis- eða landa-einkasölu. Eg lít svo á sem allur samanbur við hina gömlu einokun eigi hér alls ekki við. Tímarnir eru nú breyttir frá því sem þá var. Einokunin gamla var lögð á af erlendu valdi og hagnaðurinn af henni rann til útlendinga, en ef hér væri nú í lög tekin ríkis-einokun í stærri eða smærri stíl, þá mundi hagnaðurinn af henni renna í landssjóð. Eg er ekki í vafa um, þótt einokunin gamla væri ill, að ef arðurinn af henni hefði runnið í vasa Íslendinga þá væru þeir vel efnum búnir nú. Ríkiseinokun getur oft verið heppileg, enda notuð bæði til þess að auka tekjur ríkjanna og bæta kjör þau er almenningur á við að búa. Það getur nefnilega vel farið saman að ríkið hafi tekjur af einokuninni og varan eða notkunin verði almenningi ódýrari. Skal eg t. d. nefna síma og póstgöngur, sem allir eru sammála um að vilja láta vera í ríkisins höndum. Líkt mætti fara með margt annað — margar verzlunarvörur — t. d. kol og steinolíu, að taka verzlunina í hendur landssjóði, á þann hátt, að hann hefði arð af því, án þess að landsmönnum yrði varan of dýr, heldur máske ódýrari. En til þess að reka slíka verzlun þarf á reglusömum og duglegum mönnum að halda og verður landsstjórnin að vanda vel valið á þeim mönnum, er hún felur slíkan starfa, og má á engan hátt gera slíkar stöður að bitlingum. En eg geri ráð fyrir, að stjórnin, ekki síður en einstakir menn, eigi völ á góðum mönnum. Hitt er talsvert annað mál, að selja réttinn til verzlunar með eina eða fleiri vörutegundir einstökum mönnum eða félögum. Það tel eg miklu varhugaverðari braut, þótt eg játi að einnig sú aðferð geti eftir atvikum komið til greina. Stjórnin verður því að semja við verzlunarfróða menn, sem hæpið er að stjórnin sjái við svo að hagsmunum landssjóðs og landsmanna sé borgið, þeir vilja auðvitað bera sem mest úr býtum, og eru þaulvanir að standa í slíkum samningum, en stjórnin aftur á móti því óvön. Það getur reyndar staðið svo á, að menn séu tilneyddir að ganga inn á þessa braut, þótt varhugverð sé, og þess vegna vil eg ekki fyrirdæma hana með öllu, en eg álít ekki ástæðu til þess að grípa til slíkra ráða nú sem stendur. Það sem orskaði að menn fóru að hugsa um að fara þessa leið var fjárþörf landssjóðs, en nú er sú ástæða fallin burt, þar sem þingið er búið að samþykkja tekjuaukalög, sem bæta fullkomlega úr fjárþörf landssjóðs í bráðina. Það er líka öllum kunnugt að tillögurnar — frá milliþinganefndinni — um að selja einkarétt til verzlunar, að því er vissar vörutegundir snertir, á leigu, svo og sú stefna í heild sinni hafa mætt megnri mótspyrnu hjá þjóðinni. Og þótt eg álíti sumt af því óverðskuldað sem um þær tillögur hefir verið sagt, þá verð eg þó að halda því fram, að þjóðin þurfi að minsta kosti tíma til þess að melta slíkar uppástungur. Af framan töldum ástæðum get eg því ekki verið því samþykkur að samþykkja frv. það sem hér liggur fyrir að þessu sinni.

Það hefir orðið talsverður þytur út úr því að steinolía hefir hækkað í verði, og væri hægt að útvega landsmönnum ódýrari olíu vildi eg gjarnan stuðla að því, að svo gæti orðið, en sé það einn vegurinn að samþykkja þetta frv. óbreytt þá get eg þó ekki verið með því. Það þarf ekki annað en að benda á 10. gr. frv. til þess að sýna að frv. er með öllu óaðgengilegt. Þar er ákveðið að ef stjórnin segir upp samningnum, þá sé landssjóður skyldur til þess að kaupa öll mannvirki, sem leyfishafi hefir gera látið til reksturs steinolíunni, án þess að ákveðið sé nokkurt eftirlit með að þau séu ekki miklu meiri og dýrari en þröf er fyrir.

Annað hvort er það sá vegurinn, sem hv. 1. þm. Gk-K. (B. Kr.) benti á, eða þá að landið sjálft ræki verzlun með olíu. En það álít eg einfaldasta veginn. Ef landið sýndi sig að geta ekki rekið verzlunina nema með tapi, en mér er óskiljanlegt að það gæti orðið svo gífurlegt, þá hefði maður gert tilraun. Og þótt nokkurt tap kynni að verða þá væri það þó aldrei einkisvert, að hafa reynsluna fyrir sér. Það mætti þá sjá nokkurn veginn glögt hvort arðvænlegra væri fyrir landið að selja verzlun á þeirri vöru sem hér um ræðir á leigu útlendu félagi eða að landið reki hana sjálft fyrir eigin reikning.

Eg þykist svo hafa gert grein fyrir fyrirvara mínum og skal því ekki orðlengja þetta að sinni, enda er tíminn naumur.