21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

11. mál, samningur um einkaréttarsölu á steinolíu

Pétur Jónsson:

Ekki tími til að ræða mikið um þetta einkasölufrv. Eg skal aðeins geta þess til að sýna mína skoðun, að mér hafa virst flestar mótbárur við tillögur milliþinganefndarinnar hafa verið bygðar á miklum misskilningi og samanburði á einokuninni gömlu, og er sá samanburður als ekki viðeigandi og sprottin af vanþekkingu, ríkisskipulagið var þá alt öðruvísi en nú. Þó eg hafi verið nær tillögum milliþinganefndarinnar í „principinu“, þá hefi eg þó ekki getað fallist á að það væri heppileg aðferð til fjársöfnunar í landssjóð, að byrja á kolaeinkasölu. Öðru máli er að gegna þó menn vilji koma á einkasölu á steinolíu því að einokun á henni er fyrir í landinu. Þess vegna get eg fallist á þá heimild sem stjórninni er veitt með frv., til að ná þeim tilgangi að menn fái steinolíu jafn ódýra og áður. Og sá vinningur sem fengist við einkasöluna rynni í landssjóð. — Ef þessi tilgangur næst, þá álít eg, að vér höfum komið ár vorri vel fyrir borð, og trygt það, að steinolía fáist við viðunanlegu verði. Þessa heimild þarf stjórnin ekki endilega að nota, hún gæti samt orðið að gagni með því, að hún mundi gefa seljendum hita í haldið, og léti ekki þetta danska einokunarfélag bjóða landsmönnum afarkosti. Heimildin verður að byggjast á fullu trausti til núverandi ráðherra og stjórnarinnar. Þetta traust hefi eg. Eg treysti því að hann afli sér allra þeirra upplýsinga sem hægt er að fá um þetta mál, og að hann varist þá galla sem bent hefir verið á í „kritik“ þessa máls.

Af því trausti sem eg hefi á hæstv. ráðherra (H. H.), þá vil eg ekki setja þær skorður sem 4. gr. gerir. Þær hindra als ekki klaufalegan samning, en þær geta hinsvegar hindrað gerðan samning. Mér finst óheppilegt að auglýsa hvaða skilmálum stjórnin á að ganga að, það á að vera leyndarmál, en ekki opinber auglýsing. Þessa breytingu vil eg gera að nema burt 4. gr. og fleiri breytingar sem þarf að gera í sambandi við hana mun eg koma með við 3. umr.

Skal eg svo ekki orðlengja þetta frekar, en vona að frv. gangi greitt fram í hv. deild.