27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

16. mál, verslun og veitingar áfengra drykkja á Íslandi

Einar Jónsson:

Umræður eru nú þegar orðnar alllangar um þetta mál, og skal eg fám orðum við þær bæta.

Þó að þetta frv. beri það ekki sjálft með sér, að það sé stílað á móti klúbbunum, sem svo eru kallaðir, þá hefir það þó komið fram í umræðunum. En eftir því, sem eg veit frekast til, þá eru þeir ekki óheiðarlegri en önnur veitingahús, sem selja áfengi, leyfislaust eða með fullu leyfi, nema betri séu, að því leyti, að verðið kvað þó vera þar heldur rýmilegra en á föstum veitingahúsum. Og úr því að það er viðurkent, að þessi aðferð er ekki brot á núgildandi lögum — annars mætti auðvitað loka þeim, og annars væri þetta frv. ekki samið — þá er það undarlegt, að vera að elta uppi með nýjum lögum þá menn, sem sjálfir vilja selja sér áfengið þannig í félagi. — Eg veit að ef til vill færi bezt á því, að enginn maður færi nokkurntíma inn í veitingahús eða klúbba, en ef einhver endilega vill fá sér áfengi og meðan hann má það á nokkurn hátt, þá er honum sjálfum að minsta kosti bezt, og landinu enginn skaði, að hann fái það með sem sanngjörnustu verði. Eg kem ekki oft inn á „Hotel Reykjavík“, og aldrei á klúbba þessa, en svo mikið veit eg, að á „Hotel Reykjavík“ er verð þess sem selt er, ekki til fyrirmyndar. Einn bjór, einn vindill o. s. frv., er að minsta kosti tvöfalt dýrara en annars staðar má fá það. Og það á ekki að skara þann eld að köku þessara fáu, rándýru veitingahúsa, að þau sitji ein að öllum gróðanum. Eg lít illum augum á það, að þau ein skuli hafa leyfi til þess, að taka af mönnum stórfé fyrir áfengi, en einstaklingarnir megi ekki vera í félagi um það, ef þá langar til að fá sér snaps út í kaffið sitt etc. og þess vegna verð eg að vera á móti þessu frv.