02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Benedikt Sveinsson:

Eg vildi að eins segja örfá orð útaf ræðu háttv. þm. Sfjk. (V. G.). Hann talaði mörg orð og þung um siðspillingu og „jarm“ út af eftirlaunum embættismanna og sagði, að þeir, sem vilja lækka eða afnema eftirlaun ráðherra eða embættismanna, geri það til þess að koma sér vel við kjósendur. — „Jarmur“ er ilt orð og ómaklegt í þessu sambandi, því að eg veit ekki betur, en að þessi gremja almennings yfir því, hvernig farið er með landsfé, sé á fylstu rökum bygð. Þegar þessi fátæka þjóð fleygir árlega til þessara úgjalda, alt að 100 þús. kr., þá er það sannarlega ekki lítið fé og von að mönnum vaxi slíkt í augum. — Það verður að miða kjör embættismannanna nokkuð við kjör alþýðunnar, og ef það er gert, þá hygg eg að svo vel sé séð fyrir embættismönnum meðan þeir starfa, að þeim sé sannarlega ekki síður en öðrum kleift að tryggja sér eitthvað til að bíta og brenna í elli sinni. — Eða hvað á þá að segja um það, sem þrásækilega vill til, að menn hröklast úr embættum á miðjum aldri, rétt eins og þeir hefðu í þau farið bara til þess að komast á eftirlaun, fara síðan hingað til Reykjavíkur eða annara staða, og lifa þar á eftirlaununum heilir og hraustir að sjá, ef til vill heilan manns- aldur! Og eg vil segja að það, að bregða mönnum um óheiðarlegar hvatir þótt þeir vilji hrinda þessu eftirlaunaoki af þjóðinni, situr sízt á hv. þm. Sfjk. (V. Gk). Þeir, sem lesa hans góða tímarit, Eimreiðina, þykjast stundum finna þar sitt hvað, sem mundi horfa til þess, að afla sér lýðhylli.

Þá mótbáru gegn frumv. þessu, að afnám ráðherraeftirlauna geti orðið til þess að ráðherra reyni að hanga við völd von úr viti, hygg eg hina mestu fjarstæða. Miklu fremur mætti segja hið gagnstæða, að eftirlaunin sjálf geti verið notuð sem ástæða til þess, að láta hann hanga. Þetta er ekki gripið úr lausu lofti, því að við hvorttveggju ráðherraskiftin á undanförnum þingum (1909 og 1911) var lögð mikil áherzla á það af ýmsum, að það gengi hneyxli næst, að taka mennina, svo að segja á bezta aldri og demba þeim á eftirlaun. Og úr því að nú þegar er farið að veifa þessu, hvað mun þá verða síðar þegar ráðherrar eru orðnir þrír, sem komið geta á eftirlaun í einu. Mörgum mundi sem vonlegt væri standa stuggur af því, ekki sízt ef svo sem einn tugur væri þá fyrir á eftirlaunum. Í þessu liggur mikil hætta, því að ef vér kveinkum oss við að velta stjórn, kostnaðarins vegna, þá getur það orðið oss þröskuldur í vegi fyrir framgangi mála vorra, þegar vér eigum í höggi við útlent vald; það getur gert oss deigari og latt oss í baráttunni, í stað þess að vér yrðum harðvítugri, ef engan slíkan kostnað væri að óttast, þótt málunum væri haldið til streitu. — Enga ástæðu sé eg til þess að óttast, að þetta frv. bægi embættislausum mönnum frá ráðherrastöðu, ef það eru (eða þótt það sé) dugandi menn. Launin eru fullsæmileg, og skrítið væri að hugsa sér það, að duglegur atvinnurekandi t. d., sem nú vinnur fyrir svo sem 10 þús. kr. á ári, og síðan verður ráðherra, yrði að því starfi loknu orðinn svo aumur og aflóa, að hann gæti ekki annað aðhafst, en taka við eftir- launum! Það virðist liggja í augum uppi, að þótt einhver hafi verið starfsmaður hins opinbera í 3—4 ár, þá þarf hann ekki að hætta að vera starfsmaður í þjófélaginu fyrir því, heldur er hann að jafnaði eins vel hæfur eftir sem áður til þess að gegna hvaða starfi sem er. — Annars ættu slíkar umræður sem þessar frekar heima við 1. eða 3. umr., en við 2. umr., en úr því að aðrir hafa farið að ræða málið alment, þá hefi eg leyft mér hið sama.