08.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Valtýr Guðmundsson:

Þótt að það sé ekki tíðkanlegt, að fyrirspurnir séu bornar fram á þingi á þennan hátt þá skal eg samt verða við tilmælum háttv. þm. Dal. (B. J.) og svara fyrirspurn hans nokkrum orðum.

Eins og honum mun kunnugt, þá eru í hverju því landi, sem þingbundna konungsstjórn hafa, þrjú völd, sem eru aðskilin hvort frá öðru. Það er löggjafarvaldið, umboðsvaldið og dómsvaldið. Þessari reglu er einnig fylgt í okkar stjórnarskrá. Þar er ákveðið, að löggjafarvaldið skuli vera hjá konungi og alþingi í sameiningu, umboðsvaldið hjá konungi einum og dómsvaldið hjá dómstólunum. Undir umboðsvaldið heyrir meðal annars að skipa menn í allar opinberar stöður. Alþingi hefir því ekkert vald til að gera slíkt. Því er það, þegar þingið fer að skipa í slík embætti og gefa reglu um þau, þá er það skýlaust brot á meginreglunni í vorri stjórnarskrá. Þar sem nú seinasta þing tók upp á því að skipa ákveðinn mann í opinbera og afar þýðingarmikla stöðu — aðallega gagnvart útlöndum — þá reið á því að stjórnin eða umboðsvaldið hefði eftirlit með því. En alþingi hefir ekki aðeins tekið valdið af stjórninni til þess að skipa mann í stöðuna, heldur einnig eftirlitið, með því að skipa honum að fara eftir erindisbréfi, sem gefið var út af stjórn, er als ekki sat að völdum. Þetta er skýlaust brot á stjórnarskránni og eg er hissa á því að nokkur stjórn skuli hafa látið bjóða sér slíkt — hafi ekki neitað að hlýta þessu. (Bjarni Jónsson: Hvaða grein stjórnarskrárinnar er brotin?). 1. gr. ef háttv. þm. vil lesa hana og í sambandi við hana 2. og 3. gr. og eg álít hverja stjórn hafa haft heimild til þess að neita slíkum fjárlögum staðfestingar. Annars er þetta aukaatriði, sem ekki kemur því máli við, sem nú er á dagskrá og skal eg því ekki fara fleirum orðum um það.