12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

19. mál, verðtollur

Eggert Pálsson:

Það hafa heyrst raddir um það, bæði utan þings og innan að skattanefndin hafi þurft á löngum tíma að halda til gerða sinna og jafnvel um það líka, að árangurinn af starfi hennar sé næsta lítill. Og ekki varð skilin öðru vísi rödd sú er kom frá hv. þm. Ak. (G. GL), en að hún kvæði við sama tón. Það má að vísu segja að mikið sé nú liðið af þingtímanum, en árangurinn af starfinu er líka farinn að sjást og hann alls ekki svo ýkja lítill eftir kringumstæðum. Það var engan veginn óeðlilegt að skattanefndin þyrfti að verja miklum tíma til starfa.

Hv. þm. Ak. (G. G.) tók það fram sem satt var, að undirbúningurinn frá stjórnarinnar hálfu var næsta lítill. Þær tillögur er nefndin hafði frá henni voru þannig lagaðar að hún gat ekki aðhylst þær.

Á hinum svokallaða manifactúrtolli var sá annmarki, að ef hann hefði komist á, hefði orðið að setja á stofn svo öflugt tolleftirlit, að það mátti teljast frágangssök kostnaðarins vegna að ráðast í slíkt.

Hitt, steinolíufrv. svo nefnda, gat ekki gefið landssjóði áreiðanlegar tekjur, því að í því lá að eins heimild til stjórnarinnar, sem óvíst var að nokkurntíma yrði notuð. Það kom því til að velta á þessum tveimur frv., frv. um vörugjaldið og frv. um farmgjaldið.

Eins og menn hafa séð, klofnaði nefndin um þetta tvent. Meiri hlutinn 6 af 7 aðhyltist vörugjaldið, en minni hlutinn 1 af 7 farmgjaldið.

Mér finst þegar um skatta er að ræða, þá séu það aðallega tvö atriði sem framar öllu öðru verði að taka tillit til. Fyrst það, hvort skatturinn er í eðli sínu ósanngjarn og óvinsæll eða getur talist vinsæll og sanngjarn eftir hætti. Hitt atriðið er það, hvort líklegt er, að mikil eða lítil undanbrögð verði höfð í frammi, þegar skatturinn er intur af hendi.

Eg er nú í engum vafa um það, að vörugjaldið verður margfalt vinsælla en farmgjaldið, og það finst mér vega svo mikið, að eg tel sjálfsagt með tilliti til þess að taka vörugjaldið fram yfir farmgjald.

Svo mikið tillit ætti að taka til almennings vilja þegar um skattaálögur er að ræða, að sá skatturinn væri tekinn, sem honum geðjist betur að. Að mönnum falli skár, að gjalda factúrutoll en annan toll er mjög svo eðlilegt, því að í eðli sínu kemur hann margfalt réttlátar niður en nokkur annar tollur. Það er ekki nema eðlilegt, enda öll skattalöggjöf okkar bygð áþeirri reglu, að sá sem talinn er fyrir miklu borgi mikið, og í fullu samræmi við þetta, er það sem hér er ætlast til, að sá sem mikið verzlar borgi hærri toll en sá sem litla verzlun eða umsetningu gerir.

Hvað sanngirnina snertir má líka benda á það, að kaupmannaráðið mælir eindregið með vörugjaldinu af þessari ástæðu, og það eru einmitt mennirnir sem vita bezt hvað alþýðunni geðjast og hagar bezt í þessum efnum.

Hvað hitt meginatriðið snertir, að undanbrögð verði viðhöfð, þá getur það að sjálfsögðu viljað til um hvorn tollinn sem er. (Björn Kristjánsson: Nei.) Ekki getur mér annað virst. En það má sjálfsagt, hér sem annarstaðar, setja einhverjar varúðarreglur gegn því að menn svíkizt undan tollgreiðslunni, og hefir það verið reynt með brt. sem fram hafa komið frá nefndinni. Eg er í engum vafa um, að ef tollheimtumennirnir gæta skyldu sinnar samkvæmt þeim reglum sem settar eru í frv. og br.till., geta þeir hæglega komist eftir því hvort tollurinn er svikinn eða ekki. Þeir hafa mörg meðöl til þess, og þar á meðal, og eigi hvað síst, beinan aðgang að öllum verzlunarbókunum, eins og tekið hefir verið fram. En gangi tollheimtumennirnir aftur á móti með bindi fyrir augum eða hirði ekkert um í að rækja skyldu sína, þá má vitanlega fara í kringum lögin og svíkja tollinn að meira eður minna leyti, eftir því sem hver og einn hefir lyndisfar til. En þetta gildir ekki að eins þennan toll heldur hvern toll sem vera skal. Einhverjum undanbrögðum má jafnan við koma, ef menn á annað borð vilja hafa sig til þess. Hjá því verður ekki komist nema með sterkri tollstjórn eða tolleftirliti, sem flestir eru sammála um að ekkert viðlit sé fyrir okkur að setja á fót. Við verðum því af tvennu illu frekar að sætta oss við það að einhver lítilsháttar undanbrögð verði brúkuð heldur en fleygja svo svo miklu fé til tolleftirlits, sem vitanlega getur aldrei orðið nema kák. Og eg fyrir mitt leyti óttast ekki fyrir að undanbrögðin undan þeirri tollgreiðslu sem hér um ræðir verði svo mikil að nokkru verulegu nemi. Skorðurnar sem við því eru reistar eru svo sterkar, ef br.till. verða samþyktar að eigi þarf að gera svo mjög ráð fyrir þeim, enda um lítinn vinning fyrir hvern einstakan kaupmann að ræða, og refsingin svo ýkja hörð, ef upp kynni að komast, að fáum mun sýnast árennilegt að leggja út í slíkt.

Að hvorutveggju þessu athuguðu, að verðtollurinn er margfalt vinsælli en farmgjaldið og örðugleikarnir á innheimtu hans engu meiri en á innheimtu farmgjaldsins, blandast mér ekki hugur um að vér eigum að taka hann fremur en farmgjaldið, og vænti þess, að þeir verði fleiri, sem hallist að þeirri skoðun.

Hvað brt. á þgskj. 221 áhrærir, þá get eg fyrir mitt leyti viðurkent að hún hafi við mikil rök að styðjast, og góðra gjalda vert að reyna að afla sýslu- og sveitarsjóðum einhverra annara tekna en hins afar óvinsæla niðurjöfnunargjalds, sem nú má segja að séu hinar einu tekjur þeirra. En þar sem lögum þessum er að eins ætlað að gilda til stutts og ákveðins tíma, eða með öðrum orðum vera nokkurskonar bráðabirgðarlög, þá þykir mér varhugavert að binda hag sýslu- og sveitarsjóða við þau. En komi þau til að standa áfram má alt af koma þessari breytingu við þau að, og þá mundi eg, ef til mín kæmi, ljá því fylgi. En í þetta sinn býst eg ekki við, samkvæmt áðursögðu að geta gefið brt. atkvæði, þótt eg telji hana í eðli sínu sanngjarna og á miklum rökum bygða.