14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

19. mál, verðtollur

Jóhannes Jóhannesson:

Eg hefi nú hlýtt á mál manna um frumv. það, sem hér liggur fyrir og um farmtollinn og er ekki í neinum vafa um það, að báðir þessir tollar, farmtollurinn og vörutollurinn eru það neyðarúrræði, sem ekki gæti komið til mála að samþykkja, ef ekki væri svo brýn nauðsyn að útvega landssjóði tekna nú þegar sem er. Farmtollurinn af því, að hann er ósanngjarn í eðli sínu, verðtollurinn af því, að hann er svo erfiður í framkvæmd inni, í landi, sem enga sérstaka tollgæzlu hefir, að hætt er við að landssjóður fengi ekki það sem honum bæri að lögum. Þessir erfiðleikar á innheimtunni eru svo miklir, sérstaklega þegar um smásendingar og þá einkum póstsendingar er að ræða í samanburði við það sem landssjóður fær í aðra hönd, að mér finst með öllu ógerlegt að gera frv. það sem hér liggur fyrir að lögum. Hingað til Reykjavíkur koma póstsendingar í þúsundatali með einni póstskipsferð. Flestar eru þær mjög lítils verðar. Sumar ekki meira en krónu virði. Hversu mikið starf útheimtist ekki til að taka verðtoll af öllum þessum smásendingum, og hversu lítið er það ekki sem landssjóður ber úr býtum. Eða þá það ómak, sem það bakar móttakandanum, að verða að fara á pósthúsið og biða þar tímum saman til þess að borga ef til vill ekki nema 3 aura. Þótt verðtollur væri yfirleitt á vörum, sem sendar eru með verðskrá, gæti að mínu áliti ekki komið til mála að hafa hann á póstsendingum, heldur yrði að vera á þeim sérstakur tollur eins og sá, sem gert er ráð fyrir í farmtollsfrumv.

Hins vegar er farmtollur — sá sem stungið er upp á í farmtollsfrumvarpinu — svo lágur, að hann verður ekki mjög tilfinnanlegur og bætir það stórum úr göllum þeim, sem á honum eru. Þar við bætist að kaupmönnum mun ekki detta annað í hug en að jafna honum þannig niður á vöruna að hann komi öðruvísi niður á kaupendunum.

Eg álít því miklu gerlegra að lögleiða hann og vona að hægt verði að ganga þannig frá honum á þessu þingi, að ekki sé frágangssök að greiða honum atkv. og lögleiða hann.