24.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

38. mál, skipun læknishéraða (Hnappdælahérað)

Flutningsm. (Halldór Steinsson):

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er ekki nýtt; fyrir seinasta þingi lá frumv., sem fór í svipaða átt, og náði það samþykki Nd. en var felt í Ed. í því héraði, sem hér er ætlast til að sé myndað, eru 4 hreppar: Kolbeinsstaðahreppur, Eyjahreppur, Miklaholtshreppur og Staðarsveit. Ástæðurnar til þess að þetta frv. er komið fram, eru þær, að með lögum 16. nóv. 1907 um skipun læknahéraða, var lækninum í Mýrahéraði gert að skyldu að sitja í Borgarnesi, eða með öðrum orðum, hann var fluttur á héraðsenda.

Af þessu leiddi að vestustu hrepparnir í héraðinu neyddust til að vitja læknis til Stykkishólms yfir erfiðan fjallveg. Það er og afar óheppilegt í lögunum frá 1907, að Miklaholtshreppur er látinn tilheyra Stykkishólmhéraði. Og um Staðarsveit má segja, að miklu hægra sé að vitja læknis þaðan í hið nýja hérað heldur en til Ólafsvíkur yfir Fróðárheiði, erfiðan fjallveg og hættulegan að minsta kosti á vetrum.

Ö11 sanngirni mælir því með, að hér sé stofnað nýtt læknishérað, því ekki mun þykja tiltækilegt að flytja læknirinn úr Borgarnesi vestar í héraðið, því auk íbúanna, sem nú munu vera hátt á annað hundrað, er þar mikill straumur ferðamanna, og í seinni tíð hefir aðsókn aukist mikið vegna sláturhússins. Af þessum ástæðum mun ekki þykja rétt að flytja læknissetrið, en sé það ekki gert, er fylsta nauðsyn á að stofna þetta nýja hérað. Það verður að vísu ekki mjög fjölment; íbúar í þessu fyrirhugaða héraði eru, eftir því sem eg hefi komist næst, hátt á níunda hundrað, og er það meiri fólksfjöldi heldur en í mörgum læknishéruðum, sem þegar eru stofnuð og læknum skipuð.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv., vona að hv. deild taki því vel, og leyfi mér að fara fram á að því verði vísað til 2. umr. Mér finst ekki ástæða til að kjósa nefnd í þetta mál útaf fyrir sig, en með því að fleiri slík mál munu vera á leiðinni, væri ef til vill rétt að setja 5 manna nefnd, sem síðar tæki öll svipuð mál til íhugunar.