16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

38. mál, skipun læknishéraða (Hnappdælahérað)

Bjarni Jónsson:

Menn eru nú víst orðnir þreyttir á að hlusta á ræður í dag, en eg get þó ekki látið vera að kasta nokkrum orðum á hv. nefnd, sem hefir virt að vettugi breytingartillöguna frá mér. Í nefndinni í fyrra sátu engir vinir mínir, en þó lagði hún til að 2 læknahéruð yrðu stofnuð, Norðfjarðarhérað og Hnappdælahérað. Neðri deild samþykti það, en efri deild feldi niður Hnappdælahérað. Skil eg ekki í háttv. þm. Snæf. (H, St.) (form. nefndarinnar), að hann skuli láta sig henda þessa fásinnu, því hann gat þó haft góðar vonir um að frv. fengi fram að ganga ef hann hefði ekki haft Hnappdælahéraðið einsamalt, því einsamalt kemst það ekki í gegn. Vil eg spyrja nefndina, hvort hún vilji ekki taka málið út af dagskrá og taka á móti breytingartillögum mínum.

Þótt eg nú gjarnan vildi segja meira þessu frv. til stuðnings, þá vil eg þó láta hér staðar numið, því menn eru nú farnir að gerast þreyttir af að hlusta á ræður.