26.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

46. mál, vátrygging fyrir sjómenn

Stefán Stefánsson:

Eins og hv. flutn.m. (Sig. Sig.) gat um, var þetta frv. í líku formi til umræðu á síðasta þingi. Þá fór svo, að það var felt hér í deildinni. Eg sé nú eigi betur, að þetta frv. sé af sömu gerð í aðalatriðinu eins og hitt. Eg var mótfallinn frv. á síðasta þingi, og er sömu skoðunar enn, því sem sagt er stefnan hin sama, sú nefnilega að rýra tekjur vátryggingasjóðsins að miklum mun, þar sem iðgjöld frá mönnum á véla og róðrabátum eru lækkuð um 1/3 og alt gjald í sjóðinn frá útgerðareigendum þessara báta að hverfa. Með öðrum orðum, sjóðurinn á eftir frv. að missa hálfar tekjur sínar frá þessum úthöldum. Nú stendur hagur sjóðsins svo að hann getur aðeins borgað áfallinn skaða af manntjónum þetta ár, sem mun vera nær 30.000 kr., því við síðustu árslok var hrein eign sjóðsins 28.236,90 kr. og hefir hann þá ekkert upp í áfallin og að nokkru ógreidd gjöld frá undanförnum árum (1911, 1910, 1909 og 1908) nema tillag landssjóðs, sem mun láta nærri að borgi ólokin gjöld frá þeim árum, því þau eru víst sem næst 15.000 kr., eða þó freklega það. Af þessu er það ljóst, að það er meiningarleysa, að koma nú fram með frv. sem rýrir tekjur sjóðsins, en gerir hins vegar ábyrgðarskylduna frá sjóðsins hálfu enn víðtækari en verið hefir, þar sem hér er gert ráð fyrir að sjóðurinn greiði vátryggingar upphæðir fyrir alla þá menn, er farast af slysförum er „orsakast kunna af atvinnurekstrinum á útveginum“. Annars virðist nokkur reynsla fengin fyrir því að vátryggingar manna á bátum borga sig ekki fyrir sjóðinn, því á árunum 1910—1912 druknuðu 20 menn af bátum, og af innborguðum iðgjöldum mun ekki hafa komið nærri sú upphæð 800 kr., sem þarf til að borga fjárhæð þessara druknuðu manna. Það væri miklu fremur ástæða til að auka tekjur sjóðsins, ef hægt væri að hækka styrkinn, því að þær bætur, er sjómenn fá fyrir líf sitt nú, eru réttnefndar hundabætur en eigi mannsbætur. Að óánægja sé með núgildandi lög í kjördæmum þessara 3 flutningsmanna, það má vel vera og er mjög sennilegt, en þar sem eg er kunnugur, veit eg eigi til að borið hafi á nokkurri óánægju, nema ef vera skyldi með það, að vátryggingarupphæðin sé of lág, þar sem hún er einar 400 krónur, en það á eigi að lagfæra með þessu frv. Nei, nái þetta frv. að verða að lögum, þá yrði það sjáanlega afleiðingin að landssjóði fengi að blæða því meir, sem af iðgjöldunum er dregið, eigi annars sjóðurinn að halda áfram að vera til, sem óefað er þó tilgangur flutningsmanna.