07.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það eru aðallega tvö atriði í ræðu hv. þm. Dal. (B. J.), sem eg vildi minnast á.

Í fyrsta lagi hafði hann eftir mér það, sem átti ,að vera aðalatriðið í ræðu minni, og — eg vil ekki segja rangfærði — en að minsta kosti misskildi hann það, sér hagkvæmlega. Hann sagði, að eg hefði haldið því fram, að þar sem lotterí væru bönnuð með lögum, tíðkuðust þau jafnt eftir sem áður. Þetta er rangt hermt. Eg sagði, að í þeim löndum sem lotterí væri bönnuð, tíðkuðust samt sem áður aðrir féglæfrar, vegna þess hvernig mannlegri náttúru er farið — og hversu ílöngunin í fjárgróða á skömmum tíma og með lítilli fyrirhöfn væri mönnum ríkt í brjóst blásin. En þar sem spilafýsninni er fullnægt á annan hátt, t. d. með því að leyfa lotterí með lögum, þar eru almenn fjárhættuspil og féglæfrar mikið ótíðari enda gefur það að skilja.

Hv. þm. gaf það og í skyn, að það væri skoðun mín, að ekki ætti að samþykkja nein lög, sem hætt væri við að yrðu brotin. Hann heldur víst að ekki þurfi að segja annað en að eitthvað, sem er fordæmanlegt, sé bannað, og þá sé það þegar í stað upprætt. En þetta voru ekki mín orð. Eg sagði, að þegar brotið væri svo alment, að lögvaldið gæti ekkert við ráðið, yrðu lögin ekki annað en dauður bókstafur, þá væri þýðingarlaust að vera að banna.

Ástríðum mannanna verður aldrei út rýmt með lögum. „Þótt náttúran sé lamin með lurk, leitar hún heim um síðir.“

Eg skal minnast á það t. d. að í rómversk kaþólskum sið, þá var öllum klerkum bannað að kvongast. En við þurfum ekki að fara lengra aftur í tímann en til Jóns biskups Arasonar, sem var margra barna faðir, til þess að sjá, að eðlilegri fullnægju mannlegrar náttúru verður ekki varnað með lögum. Það má lögbanna mönnum að kvongast, en þeim verður ekki varnað að geta börn — leynt eða ljóst. Í lútherskum sið eru flestir prestar einnar konu eiginmenn, því að þar er engin nauðung lögð á, en fremur hefir hitt þótt brenna við hjá kaþólsku-prestunum, að þeir væru ekki við eina fjölina feldir. Grísk-kaþólska kirkjan leyfir lægstu klerkastéttinni að kvongast og er það nokkuð skynsamlegra.

Eg skal segja hv. þm. dálitla sögu, þessu máli mínu til stuðnings. Þegar eg var 24 ára gamall, kom eg einu sinni í Indíánabæ í Ameríku. Íbúar voru eitthvað á 3ja hundrað, og þar af voru að eins 3 menn hvítir — einn Bandaríkjamaður, einn Svíi og einn Rússi. Rússinn var prestur, en var í tölu heldri presta, og mátti því ekki kvongast. Eg hitti í þessum bæ einn Indiána að máli. Það voru mörg börn að leika sér þar á götunni í kring. „Eru þetta börnin yðar?“, sagði eg. „Onei! Það eru börnin prestsins okkar. Hann á öll börnin í bænum“. Enda sá eg þess ljósan vottinn, að minsta kosti fjöldi barnanna voru kynblendingar. Þarna er eitt dæmið enn, að lögin hepta ekki mannlegar ástríður.

Þá mintist hv. þm. enn þá einu sinni á metramálið. Hann sagði, að ef nýyrðin hans væru notuð, þá mundi engum detta í hug önnur eins fjarstæða og það, að miða vog við metur. Ef orðið stika væri notað, þá sæju allir, að það væri lengdarmál og þyngd yrði ekki miðuð við það. Hitt kæmi af því, að menn skildu ekki orðið meter. En ef hv. þm. hugsar sig um, þá hlýtur hann að sjá, að þetta er engin fjarstæða. Það er einmitt alt mál miðað við metrið. Ekki að eins lengdin, heldur einnig rúmmál og þyngd. Flatarmál er miðað við fermetur og rúmmál við teningsmetur, en þyngd er aftur miðað við teningsmál eða ? tengingsmetur, því að 1/1000 teningsmeturs af vatni er 1 kílógramm, í einn líter. Hér yrði engin breyting á, þótt hann kallaði metrið stiku — það hangir alt svo nákvæmlega af lengdarmálinu sem frumeining þeirri, sem alt er miðað við.