05.08.1912
Efri deild: 16. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

16. mál, verslun og veitingar áfengra drykkja á Íslandi

Steingrímur Jónsson:

Háttv. þingm. Vestmannaeyinga bar frv. þetta fram í Nd., og er það borið fram sjerstaklega til þess að reyna að hefta ólöglegar vínveitingar hjer í höfuðstaðnum.

Tilgangur þessa frumv. er því mjög góður, og má vera, að frumv. hafi verið gott, eins og það var borið fram, en eins og það er nú, er það verulega athugavert í ýmsum greinum, og ýms ákvæði þess er beinlínis hættulegt að samþykkja.

Jeg skal t. d. benda á, að í frumvarpi þessu er sagt, að áfengisdrykkja skuli vera bönnuð, nema með leyfi lögreglustjóra. En bannlögin, er margir telja full ströng gagnvart athafnafrelsi manna, ganga ekki svipað því svo langt, heldur banna að eins áfengisdrykkju, þegar áfengið er sterkara en 21/4%

Ennfremur er skilyrðalaust bannað, að hafa áfengi um hönd í nokkru fjelagi, og er þar gengið mikið lengra en bannlögin gera. Svo er þetta að eins kallað breyting á lögum, nr. 26., frá 11. nóv. 1899, um verzlun og veitingar áfengra drykkja á Íslandi, en það er rangt, að hnýta slíku við góð lög. Ef menn vilja endilega lögleiða þessu lík ákvæði, er sínu nær að hafa það sjálfstæðan lagabálk.

Jeg skal bæta hjer við enn einu, sem er af sama sauðahúsi. Eftir frumv. má lögreglustjóri leyfa víndrykkju í samsætum einstakra manna, og án slíks leyfis má þar ekki víns neyta. Ef nú einhver hefur birgt sig vel upp af víni, og vill veita sjer og vinum sínum glaða kveldstund, þá verður hann fýrst að senda, máske langa leið, til lögreglustjóra, til þess að fá leyfi til kveldglaðningsins.

Eins og sjá má af þessu, er frumv. verulega athugavert, en efni þess er hinsvegar svo þarft, að jeg vil ekki ráða til, að það sje felt, heldur legg jeg til, að því verði vísað til 3 manna nefndar, að umræðu lokinni.