29.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

54. mál, líftrygging sjómanna

Flutningsm. (Matthías Ólafsson):

Herra forseti! Aðalhugsunin með þessu frv. er að koma í veg fyrir að nokkur maður geti druknað í sjó eða vatni óbættur. Hin tíðu slys í sjó eru nú í seinni tíð orðin að hinu mesta áhyggjuefni þjóðarinnar, og þau lög sem nú eru til um vátrygging fyrir sjómenn hrökkva lítið til að bæta úr neyð, sem hlýzt af þessum slysum. Það hefir nú ekki vakað fyrir mér að með þessu frv., sem hér liggur fyrir, sé að fullu bætt úr þeim göllum, sem á eru í þessu efni eða að ekki sé þörf á frekari umbótum, en eg hefi ekki þorað að stíga lengra spor í bráðina.

Ætlast er til að sérhver sjómaður sé skyldur að kaupa sér 1.000 kr. líftrygging og iðgjaldið fyrir hvert ár sé 10 af þúsundi (í 3. gr. er prentvilla 10% á að vera 10%0). Mér sýnist sjómönnum ekki ofþyngt þó þeir greiði þetta gjald.

Í sumum héruðum ríkir sá hugsunarháttur, að menn vilja fá jafnmikið úr sjóðnum og þeir gjalda í hann. Þessi hugsunarháttur er gersamlega rangur og háskalegur. Hugsum okkur tvö héruð: Annað geldur 2.200 kr. í sjóðinn; á sama tíma drukna 2 menn og héraðið fær 800 kr. bætur. Hitt geldur 1.300 kr., en hefir á sama tíma fengið 5.200 kr. bætur fyrir 13 druknaða menn. Hvort héraðið væri nú betur sett á eftir, það sem tapaði 2 mönnum og fékk 800 kr. eða hitt sem misti 13 menn og fékk 5.200 kr.? Mundi það héraðið, sem misti 2 menn og fekk 800 kr vilja skifta? Eg held ekki. Það héraðið stendur auðvitað miklu betur að vígi, sem færri misti mennina. Yfir höfuð verður það hérað bezt úti, sem mest greiðir í sjóðinn í hlutfalli við það, sem það fær úr honum. Ef þessi hugsunarháttur, að vilja fá sem mest úr sjóðnum, skýtur nokkursstaðar upp höfði, verða beztu menn landsins að gera alt, sem í þeirra valdi stendur til að kæfa hann niður. Þeir verða að sameina kraftana til að gera sjómannastéttina framsýna og ötula í bardaganum við okkar sameiginlega óvin, óblíðu náttúrunnar, og þeir eiga allir að hafa gleði af því að stuðla að því að stríðið verði henni sem hægast.

Eg býst nú við að ýmislegt sé athugvert við þetta frv., meðal annars málið. Eg er ekki eins mikill málfræðingur eins og æskilegt væri.

Eg vildi óska, ef þetta frv. verður látið ganga til 2. umr., að því verði vísað til nefndarinnar í málinu um vátrygging fyrir sjómenn, og leyfðist nefndinni, samkvæmt 15. gr. þingskapanna, að bæta við sig 2 mönnum, því eg býst við að nefndarstörfin muni verða æði umfangsmikil.

Það sem aðallega hefir vakað fyrir mér við samning þessa frv , er að koma í veg fyrir að nokkur maður, sem atvinnu stundar á sjó eða vötnum um lengri eða skemmrí tíma, hvort heldur er við fiskveiðar eða annað, geti drukknað óbættur. Til að ná því takmarki, gerir frumv. öllum slíkum mönnum að skyldu að kaupa sér líftrygging og láta innrita sig sem sjómenn. Sú innritun á fram að fara áður en lagt er út í vetrarvertíðina, fyrstu vertíðina á árinu.

Líftryggingarupphæðin er sett svo lág sem hægt er, en er þó stór bót frá því sem nú er.

Það sem tekið er fram í 4. gr. um undanþágu fyrir þá, sem ekki eru ráðnir í því á innritunartímanum, hvort þeir stundi sjómensku, sýnist sjálfsagt og skal eg ekki fjölyrða um það.

Allir, sem innritaðir eru, skulu skyldir til að bera merki, sem ekki velkist eða skemmist, og skal á þeim vera ártal, svo ekki sé hægt að nota eldri merki. Slík merki eru engin hundsmerki, heldur sæmdarmerki. Goodtemplarar bera t. d. slík félagsmerki og þykir sómi að. Til að koma í veg fyrir að nokkur fari í sjó, sem ekki hefir merki, er formönnum bannað að taka merkjalausa menn á skip.

Fyrir vestan er það altítt þegar menn vanta á bát vegna veikinda eða annara forfalla, að formenn taki óráðna menn í einn og einn róður. Þessir menn eru kallaðir ljótu nafni fyrir vestan, þeir eru kallaðir skipaskækjur. Þessir menn hafa hingað til getað farið í sjóinn óbættir. Síðasta dæmið kom fyrir í sumar vestur á fjörðum. Fátækur maður, sem hafði stundað fiskveiði á Ísafirði yfir vorvertíðina, var afmunstraður þar, tekur út á vorafla sinn og leggur á stað til Dýrafjarðar til að vera heima í sláttarbyrjun. En hann druknar á leiðinni, og eftirlifandi vandamenn hans áttu ekki heimtingu á neinum bótum, því hann var ekki lögskráður.

Annað dæmi þessu líkt kom fyrir í fyrra á Patreksfirði. Sonur bláfátæks manns druknar í róðri og komu engar bætur fyrir, af því að hann var ekki lögskráður.

Eg skal nú ekki lengja fundinn meira en orðið er. Eg vona, að hv. þm. sjái, að hugsunin í þessu frv. sé þess verð, að það verði látið ganga til 2. umr. Þó einhverju megi breyta til batnaðar í frv, vona eg að aðalhugsunin megi haldast óbreytt.