05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Flutningsm. (Stefán Stefánsson):

Eg skil ekki hvað hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) meinar með þeirri mótbáru sinni, að þetta muni fella jarðirnar í verði, þegar það er tekið fram, að landssjóður verði að ganga að því verði, sem annars býðst fyrir þær, og þar með loku skotið fyrir það, að eigandi tapi nokkru af því verði, sem honum býðst annars staðar. — Að þetta baki seljanda svo mikla vafninga, held eg ekki sé ástæða til að ætla.

Hv. þingm. er það vitanlegt, að hverjum sem selja vill jarðeign sína, er skylt að grenslast um það hvort leiguliðinn — búi eigandinn ekki á jörðinni — eða það sveitafélag, sem jörðin liggur í, vilja nota sinn rétt til kaupanna eða ekki. Og þótt hann þyrfti að biða tvo mánuði eftir svari frá stjórnarráðinu, þá er það ekki langur tími, þegar það er sá allra lengsti tími sem hann þarf að bíða eftir svari, enda yrði það að öllum líkindum mikið skemmri tími jafnaðarlega.

Eg get hugsað að margur þakkaði fyrir að eiga vissan kaupanda að jörð sinni, þótt ekki væri fyr en þetta. Og ef þetta fæst, þá eru líkur til þess að jörðin komist aftur innan skamms í sjálfsábúð, því að komi ábúandi, sem bæði vildi og gæti keypt jörðina aftur af landssjóði, þá fengi hann venjulegast jörðina.

Eg sé, sem sagt, ekkert í þessum mótbárum, sem ástæða er fyrir mig að svara fleiri orðum en eg þegar hefi gert.