18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í C-deild Alþingistíðinda. (1017)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Jón Magnússon:

Það er einungis fyrir siðasakir að eg stend upp. Eg hefi leyft mér að bera fram eina breyt.till., en eg þarf ekki að tala fyrir henni, því að hún hefir verið mikið rædd og fengið ágætan stuðning margra háttv. þingmanna. Eg læt mér nægja að nefna hana. Hún er um það, að fjárveitingin til Einars skálds Hjörleifssonar — verði ekki færð niður. Hann hefir fjögur undanfarin ár haft 1200 kr. á ári og eg get ekki hugsað mér neina sennilega ástæðu fyrir því, að rétt sé að þessi upphæð verði lækkuð. Yfirleitt hafa ekki verið færðar neinar ástæður fyrir því, að réttmætt sé að færa niður þann styrk, er skáldunum hefir verið veittur. Að vísu bryddi á þeirri stefnu hjá þinginu 1907, að réttara væri að haga styrk til skálda svo, að hann kæmi fram sem borgun fyrir unnið verk, en ekki sem árleg laun. En eg hefi litið svo á, að þingið væri horfið frá henni aftur. Annars þarf eg ekki annað en að skírskota til ræðu háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.), um það atriði. Það væri ekki annað en hverflyndi af þinginu, ef það færi nú alt í einu að breyta þessu. Það er reyndar farið að brydda á þessu hverflyndi í öðrum efnum. Eg minnist sérstaklega eins, sem þingið hefir samþykt, en nú er farið fram á að það taki aftur. Það er lítil fjárveiting til cand. Sigurðar Guðmundssonar á núgildandi fjárlögum, til þess að undirbúa sig undir að semja íslenzka bókmentasögu, Það getur verið, að ekki hafi verið ástæða til að veita þetta. í fyrstu, því að maðurinn var ungur og óreyndur. En úr því að það var veitt á annað borð, þá sé eg ekki, hvaða ástæða er til þess nú, að þingið fari að kippa að sér hendinni.

Alveg sama er að segja um styrkinn til Hannesar Þorsteinssonar, sem honum var veittur til að vinna ákveðið verk. Það er undarlegt, ef hann verður sviftur styrknum nú, þegar hann er farinn að verja kröftum sinum aðallega til þessa starfs.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta, enda býst eg ekki við, að það hafi mikla þýðingu.