21.08.1913
Neðri deild: 40. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í C-deild Alþingistíðinda. (1099)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögumaður meiri hlutans (Jón Magnússon):

Allmargir þm. hafa minst á það, að þeir hafi enn ekki athugað til hlítar tillögur nefndarinnar, vegna anna undanfarinna daga, og hafa kvartað yfir því, að frumvarpið sé fullfljótt tekið á dagskrá. En nú er farið að líða á þingið og ef stjórnarskrárbreyting á að ná fram að ganga nú, þá má ekki draga málið lengur. Eg býst nú við, að það sé rétt, að menn hafi ekki getað athugað breyt till. vegna anna í fjárlögunum nú undanfarið. Geri eg þá ráð fyrir, að frumvarpið verði sérstaklega rætt við 3. umr. Ekki liggja fyrir breyt.till. frá öðrum en nefndinni, sem klofnað hefir í tvo hluta. Ætti því ekki að þurfa að búast við miklum um ræðum nú. Og eg skal vera stuttorður.

Eins og tekið er fram í áliti meiri hlutans, var frumvarpið mikið rætt á þinginu 191l, og þar sem margir háttv. þingdeildarmenn eru enn þeir sömu sem þá, er ekki eins mikil þörf að ræða það eg ella mundi.

Aðal-breytingarnar hér eru rýmkun kosningarréttarins og skipun þingsins; önnur atriði eins og t.d. ákvæði um að konungur vinni eið að stjórnarskránni, dómarar í lands yfirrétti séu ekki kjörgengir, kjörgengi sé bundið við landsvist o. s. frv. ætla eg ekki að minnast á að svo stöddu.

Um kosningarréttinn skal eg taka það fram, að meiri hlutinn hefir fallist á að gera kosningarréttinn almennan, svo að hann nái jafnt til karla og kvenna, með þeim takmörkunum einum, sem hingað til hafa verið taldar sjálfsagðar hvervetna um heim allan. Aðal-munnrinn á skoðun meira og minna hlutans lýtur ekki að efninu, heldur að því, hvernig koma eigi rýmkum kosningarréttarins á. Háttv. minni hluti vill rýmka réttinn alt í einu. En meiri hl. telur það varhugavert, og sumir hafa jafnvel verið tregir á að ganga svo langt sem meiri hl. þó hefir gert.

Eg verð að segja, að mér þykir það atakt vanþakklæti hjá háttv. minni hl., að vera ekki þakklátur meiri hlutanum fyrir tillögurnar um þetta atriði. Hvað eru 15 ár í lífi heillar þjóðar? Allir þeir menn, sem halda fram kvenréttindum, ættu að geta fallist á tillögur meiri hlutans og vera þeim þakklátir, því að þar með er kvenréttindamálinu hrundið áfram alveg fyrirhafnarlaust; eg get ekki talið það, sem konur hér á landi hafa á sig lagt til þess að afla þessu máli gengis.

Eg held ekki, að það sé rétt hjá hv. minni hl., að það muni vekja óánægju hjá þjóðinni, þótt breytingin um kosningarréttinn komist á smátt og smátt. Eg ímynda mér, að þeir séu ekki fáir, sem telja breytinguna varhugaverða, enda er og þetta lítt og óvíða reynt.

Hitt atriðið, tillögur meiri hlutans um deildaskipunina, býst eg við að mörgum kunni að þykja varhugaverðara. En þótt því kunni ekki að verða tekið vel, sérstaklega vegna þess, að farið er þar fram á fækkun kjördæma, sem mun vera nokkuð viðkvæmt atriði, þá eiga háttv. þingdeildarmenn sannarlega ekki að fara eftir því, heldur eingöngu eftir því, hvað þeir telja heppilegast.

Eg álít, að þetta fyrirkomulag, sem nefndin stingur upp á, hafi mikla kosti. Þegar kosningarrétturinn er gerður svo almennur, þá þarf að setja einhverjar skorður. Líka er það vitanlegt, að hreppapólitík ræður ekki svo litlu í deildunum og verða oft á því hrossakaup, en ef önnur deildin væri kosin fyrir landið alt, þá mundu auðvitað þingmenn þeirrar deildar skoða sig sem þingmenn þjóðarinnar í heild sinni. Þetta tel eg afarmikinn kost. Sú deild mundi verða skipuð reyndum og þektum mönnum og sennilega þeim einum, er áður hefðu setið á þingi. Eg býst nú við, að það kveði við, að verði þessir þingm. kosnir hlutbundnum kosningum um land alt, þá muni það helzt verða Reykvíkingar, sem kosningu næðu, og þá einkum ritstjórar. Eg efa nú að þetta sé rétt, en þó svo væri, þá álít eg ekki að væri stór skaði skeður, því að það er vitanlegt, að þeir — stöðu sinnar vegna – hljóta að sinna mest almennum málum og athuga þau. Og það hefir verið okkar skaði, að við höfum aldrei átt þá menn, sem eingöngu hafa getað gefið sig að pólitík. Flestir hafa orðið að hafa stjórnmálin sem hjáverk.

Annars skal eg ekki fara frekara út í þessi atriði, en að eins minnast lítið eitt á nefndarálit háttv. minni hluta.

Þar stendur, að kosningarrétturinn sé eign hvera fullveðja manna, en engum sé óréttur gerður, þótt einhver sérstakur aldur sé tiltekinn. Eg skil það ekki vel, ef kosningarétturinn er eign hvers fullveðja manns, hvers vegna þá á að binda hann við 25 ár, en ekki við það að maðurinn verði fullveðja. En þetta er ekki rétt, þetta tvent þarf alls ekki að fylgjast að.

Það er heldur ekki rétt, þar sem hv. minni hluti er að tala um það misrétti, sem leiðir af því að allir fái ekki kosningarréttinn í einu. Þetta aldurstakmark hittir alla jafnt, og það var einmitt það sem nefndin vildi.

Að það sé alt af handahófi, getur auðvitað verið álitamál, en hitt verð eg að halda fast við, að það sé full ástæða til að veita réttinn ekki nema smátt og smátt. Það er hætt við að konur mundu, ef þær fengju kosningarréttinn allar í senn, skoða sig sérstakan flokk, er að eins mætti kjósa konur einar á þing. Að minsta kosti höfum við Reykvíkingar dæmin fyrir okkur í þessu.

Þá segir hættv. minni hluti líka, að kjósendur, þeir sem nú eru, missi ekki neins í af rétti sínum. Eg veit ekki, hvernig háttv. þingmaður fer að segja þetta? Það gæti ef til vill verið rétt út frá hans sjónarmiði, að segja, að þeir missi ekki annað en það, sem þeir ættu að missa. En réttinn missa þeir, að miklu leyti, þar sem þeir áður höfðu full ráð, en eiga nú, eftir tillögum minni hlutans, ekki að hafa nema hálf ráð.

Hann talar líka um, hve lítill munur sé á körlum og konum hér. Þau alist upp við sömu kjör, njóti sömu mentunar o.s.frv. Þetta getur nú verið álitamál. Þá er það ekkert sérstakt fyrir okkur Íslendinga, sem háttv. þingmaður getur um, að af 5 bræðrum geti einn orðið ráðherra, annar sjómaður, þriðji skósmiður, fjórði kaupmaður o.s.frv. Þetta getur komið fyrir og hefir komið fyrir í öllum öðrum löndum.

Annars skal eg ekki fara frekara út í málið fyr en eg hefi heyrt umræður manna um það.