23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í C-deild Alþingistíðinda. (1135)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Matthías Ólafsson :

Eg skal lofa því, að verða ekki mjög langorður. Eg á bara eina brt. á þgskj. 488, sem fer fram á að hækka símalánið til Súgandafjarðarsímana úr 15 þús. kr. upp í 20 þús. kr. En það var ekki vegna hennar að eg stóð upp. Eg hefi nefnilega ekki mikla von um að hún verði samþykt. Og ég ætla að láta það ráðast. En það var vegna brtill., sem fjárlaganefndin hefir komið fram með og fer í þá átt, að alt fé, sem ætlað er til unglingaskóla, komi í einn lið og verði veitt til þeirra 14,000 kr. Þetta er auðsjáanlega gert til þess, að Núpaskólinn verði ekki nefndur sérstaklega á fjárlögunum. Nefndinni er eitthvað í nöp við þann skóla; hún vildi láta fella styrkinn til hans við 2. umr., en þegar það ekki tókat, þá er reynt að finna nýtt ráð og það er þetta.

Nefndin hefir lagt til að veita 14,000 kr. á fjárlögunum til unglingaskóla, og er þá þar með talinn Hvítárbakkaskólinn, sem á að fá 30 kr. fyrir hvern nemanda. Mér er ekkert í nöp við Hvítárbakkaskólann og ætla ekki að leggja á móti honum, en nefndin hefir með þessu móti dregið undan 750 kr. frá því sem samþykt var við 2. umr. Áður voru áætlaðar 14,750 kr. til unglingaskóla, en nú vill nefndin ekki veita nema 14,000 kr.

Háttv. framsögum. fjárlagan. (P. J.) sagði, að ekki væri ætlast til að skólarnir mistu nokkurs í við þessa breytingu. Eg skil ekki, hvernig hann vili koma þessu heim og saman. Eg get ekki betur séð, en að einhver hljóti að missa þessar 750 kr., sem vantar. Það sem nefndina og mig greinir á um er ».principið«. Eg vil láta tilgreina, hvaða skólar eigi að njóta góðs af styrkveitingunni, en það vill nefndin ekki. Eg get ómögulega séð, hvaða hætta getur af því stafað. Eg vona því að allir, þeir sem greiddu atkvæði með styrknum til Núpsskólans við 2. umr., greiði líka nú atkvæði móti brtill. nefndarinnar. Því að þá greinir líka á Við nefndina um »principið«.

Úr því að eg á annað borð stóð upp, skal eg lítillega minnast á vitamálin. Því hefir verið haldið fram af háttv. þm. N.-Þing. (B. SV.), að ekki eigi að byggja Vita fyrri en að hægt sé að byggja á Meðallandstanga. Eg hefi nú gert mér alt far um að finna út, hvar fyrst eigi að byggja vita, og er á þeirri skoðun, að við, sem tökum flestum þjóðum hærra vitagjald, megum ekki láta neitt ár líða svo, að við ekki byggjum vita. Og eg hygg að fyrsti vitinn eigi að vera á Ingólfshöfða. Það hefir verið sagt, að sá viti yrði mest reistur fyrir útlendinga. Útlendingar borga alt eða mest alt, sem við fáum í landssjóð fyrir vitagjald. Það er því ekki nema rétt að við reisum vita þar sem þeir hafa þeirra mest not. Skipsskrokkarnir á söndunum eystra eru líka ljósasti votturinn þess, að vitans á Ingólfshöfða er þörf. Þar ferst fjöldinn allur af botnvörpungum, og það á ekki að standa þessari vitabyggingu í vegi, að þeir eru okkur engir aufúsugestir.