27.08.1913
Neðri deild: 44. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í C-deild Alþingistíðinda. (1165)

37. mál, hagstofa Íslands

Framsögum. meiri hl. (Valtýr Guðmundsson):

Eins og tekið er fram í nefndaráliti meiri hlutans, þá hefir hann komist að þeirri niðurstöðu, að ekki verði hjá því komist að setja þessa hagstofu á stofn. Verkið við að safna og semja þessar skýrslur er mikið og því er ekki að furða, þótt það hafi þótt við brenna að það væri all-ófullkomið hingað til, þar að því hefir verið unnið mest á hlaupum eða í frístundum manna í stjórnarráðinu.

En ekki verður gengið að því gruflandi, að þetta hefir töluverðan kostnað í för með sér. Hve mikill hann verður, er ekki gott að gera sér grein fyrir.

Nefndin, sem sett var í málið í efri deild, hefir gert áætlun um þann kostnaðarauka, sem þetta hefði í för með sér, en hún hefir ekki tekið alt með í reikninginn. Hún hefir gleymt stofnkostnaðinum, sem stjórnin hefir áætlað 3000 kr. Til dæmis yrði að öllum líkindum að leigja hús fyrir hagstofuna. Reyndar hefir nefndin í Ed. gert ráð fyrir því, að nota mætti herbergin hér uppi í Alþingishúsinu, sem áður voru notuð fyrir forngripasafnið. Ef það væri hægt, þá myndi sá kostnaður sparast.

Við höfum ekki gert miklar breytingar á frv. Aðalbreytingin er Við 5. gr. Nefndin leit svo á, sem ekki væri heppilegt að hafa að eins 1 fastan mann á hagstofunni. Samvinnan verður mikið betri ef 2 menn eru þar fastir heldur en 1, og því leggjum við til að alt það fé, sem ætlað er til aðstoðarmanna, eins eða fleiri, verði ætlað 1 föstum manni. Aftur á móti höfum við ekki lagt til að gera embættin konungleg. Nefndin lítur svo á, að ekki sé rétt að stofna slík embætti, nema áður sé rannsökuð launakjör embættismanna allra.

Brtill. er komin fram frá háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.), um að gera hagstofunni að skyldu að endurskoða reikninga, sjóða ýmiss konar og jafnvel prívat-félaga Nefndin var öll á sama máli um það, að hér væri um alóskilt mál að ræða. Hún leit svo á, að ef frumv. um lögskipaða endurskoðendur gengur fram hér, þá væri heppilegra að fela þeim slíka endurskoðun.

Nefndin leggur því til að fella breytingartillöguna.

Að öðru leyti lít eg svo á, að ekki þurfi að lengja umræður um þetta mál. Geri eg ráð fyrir að allir hafi lesið nefndarálitið.