27.08.1913
Neðri deild: 44. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í C-deild Alþingistíðinda. (1173)

102. mál, einkaréttur til að vinna salt úr sjó

Ráðherrann (H. H.):

Eg hefi ekkert á móti frumvarpinu í aðalatriðunum. Það eru að eins nokkur formleg atriði, sem eg vildi gera athugasemdir við.

Í 5. gr. er gert ráð fyrir að leyfishafi greiði í landssjóð 1 kr. af hverri smálest af salti, er fyrirtæki hana framleiði og »samsvarandi gjald af öðrum efnum eftir verðmæti«. Þessi orð virðast mér óljós. Það liggur beinast við að skilja þau svo, að hann eigi að greiða 1 kr. af hverju smálestarvirði af salti, þ. e. af hverju 20 kr. virði í skatt af öllum eignum sínum, bæði byggingum og áhöldum o.fl. Þetta væri óheyrilega hár skattur, einkum þegar þar við bætist, að hann má tvöfalda eftir 10 ár, Þegar svo væri í garðinn búið, er eg hræddur um, að fáir yrði til að takast þetta fyrirtæki á hendur. Það getur verið, að eg skilji þetta ekki rétt, en eg vildi þó leiða athygli háttv. nefndar að þessu atriði.

Í 6. gr. er sagt, að ekki megi »undanþiggja leyfishafa tollum þeim, farmgjöldum eða sköttum, er á hverjum tíma gilda, nema með sérstökum lögum. Þetta ákvæði er algerlega óþarft, því að það er sjálfsagt, að ekki má undanþiggja neinn mann tollum, farmgjöldum eða sköttum, nema með sérstöku vegaleyfi, eða af alveg sérstæðum atvikum. Það er því sjálfsagt að fella þetta ákvæði burt. Síðari hluti greinarinnar getur staðið fyrir því.

Þriðja atriðið er í 4. gr.: »Landstjórnin hefir rétt til að skipa eftirlitsmenn með stofnun og rekstri fyrirtækisins og greiðist kostnaðurinn við slíkt eftirlit af leyfishafa. Þetta ákvæði er nokkuð rúmt. Landstjórnin gæti skipað svo og svo marga eftirlitsmenn, með svo háu kaupi sem henni sýndist, og leyfishafinn yrði að bera allan kostnaðinn við það. Stjórnin gæti því nokkurn veginn séð svo um, að þetta yrði ekki mikið gróðafyrirtæki fyrir leyfishafann. Það er ekki svo að skilja, að eg búist við að þessu mundi verða beitt þannig af nokkurri stjórn. En orðalagið er óviðkunnanlegt, og ef útlendingar ættu að fara að leggja fé til þessa fyrirtækis, þá mundu þeir fljótt reka augun í þetta.