29.08.1913
Neðri deild: 46. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í C-deild Alþingistíðinda. (1196)

13. mál, vörutollur

Magnús Kristjánsson:

Breyt.till. nefndarinnar hafa mætt talsverðum andmælum, en þau álít eg að ekki hafi við rök að styðjast. Eina gilda ástæðan til þeirra ætti að vera sú ef breytingar á þessu stigi málsina gætu orðið til þess að tefja fyrir málinu, svo það kæmist ekki fram. Mótbárur háttv. 1. þm. G.- K(B. Kr.) og háttv. þm. S-Þing. (P.J.) falla að nokkuru leyti saman. Þeir skoða svo, sem þetta gerði mönnum erfiðara fyrir, um eftirlit með því að rétt væri gefið upp um vörurnar. Þetta get eg ekki séð að sé rétt. Það eru aðallega 2 tegundir, sem haldið er fram að þetta geti komið fyrir með, sé segldúkur og svo tvinni og garn. En hættan yrði alveg in sama nú, eins og áður, því að ef menn vilja reyna að komast hjá hærra tolli með því að blanda vörunum saman, þá geta menn það ósköp vel. En ef innheimtumenn vilja, þá geta þeir rannsakað þetta ef þeim þykir ástæða til. Þess vegna álít eg þessar athugasemdir háttv. þm. alveg ástæðulausar.

Um bátana vil eg segja það, að það skiftir miklu, hvort þeir eru með öllu undanþegnir tollinum. Það getur ekki leitt til annars en þess, að erfiðara verður að stunda bátasmíð hér í landinu en ella. Vélaáburðinum stendur svo á, að nefndin hefir til hægðarauka sett þetta alt undir eitt, af því að það er örðugt að hafa tvenns konar gjald af sama hlutnum. Og það er alveg réttmætt að kalla þetta alt einu nafni vélaáburð, hvort sem það er nú þykkra eða þynnra.

Eg legg nú að vísu ekki svo mikið kapp á þessar breytingar, ef menn eru sannfærðir um að málið komist þá ekki fram, en eg get samt ekki séð annað en að breyt.till. nefndarinnar séu réttar og eðlilegar.

Eg lít svo á, að þessir erfiðleikar verði fremur léttir á metunum, þegar líka þess er gætt, að við umr. í Ed. gat einn háttv. þm., sem er innheimtumaður landssjóðs, þess, að innheimtan yrði ekki erfiðari fyrir þetta.

Æskilegast þætti mér, að tillit yrði tekið til breyt.till. nefndarinnar, en gæti þó, eftir atvikum sætt mig við að frv. Ed. yrði samþykt óbreytt.