30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í C-deild Alþingistíðinda. (1225)

2. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Framsm. (Valtýr Guðmundsson):

Það eru að eins örfá orð. Hæstv. ráðherra var með ákúrur til mín út af því. að eg hefði ekki tekið aftur ummæli mín hér í deildinni um reikninga Hendriksens. Eg hefi ekkert að taka aftur. Eg tók það fram, að tölurnar hjá Hendriksen kæmu heim við tölurnar í bókunum. Hitt stend eg við, að fyrning og vextir eru of hátt reiknaðir, þar sem skipin hafa verið metin meira en þau voru verð. og þar sem fyrning er miðuð við alt árið, en Hendriksen gerir ráð fyrir að skipin væru ekki í förum á vetrum. Það gerir ekki svo lítinn mismun, að þau standa uppi allan veturinn og hafa stöðugt eftirlit með þeim, eina og hann líka gerir ráð fyrir. Og ráðherra hefir sagt mér, að Austri og Vestri muni ekki hafa verið í förum að vetrinum. En það er alls ekki tilætlunin með þau skip, sem frumv. getur um. Þau eiga að vera í förum allan veturinn.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þm. Skgf. (Ól. Br.) tók fram, að stjórnin muni ekki hafa nægilega þekkingu til að sjá um útgerðina, þá er því ekki öðru að svara en því, að frumv. leggur einmitt til að fé verði veitt til aðstoðarmanns stjórninni í þessu efni.